Norðurland eystra
  • 2255

Möðruvallakirkja (Möðruvallaklausturskirkja)

Hörgárdalur, Eyjafirði

Byggingarár: 1865–1867.

Hönnuður: Jón Christinn Stephánsson forsmiður.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Möðruvallakirkja er timburhús, 17,96 m að lengd og 8,23 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru sex smárúðóttir oddbogagluggar úr steypujárni og einn á framhlið yfir dyrum. Kirkjan er klædd slagþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Upp af framstafni er hár og breiður ferstrendur stallur og á honum er áttstrendur turn. Á turnstalli er áttstrent bryggjumyndað þak en lág áttstrend íbjúg spíra á turni. Turnþök eru klædd sléttu járni. Bogadregin hljómop með hlera fyrir eru á þremur hliðum turns en inndregnir bogafletir á turni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir og um þær faldar og strikaður bogadreginn bjór yfir.

Forkirkja er þiljuð af framkirkju með þverþili. Í henni er stigi upp á söngloft og setsvalir og spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn af þeim er gangur og þverbekkir hvorum megin hans. Lágt kórþil með renndum pílárum er á mörkum framkirkju og kórs og renndir kórstafir í kórdyrum. Prédikunarstóll og skírnarfontur eru í framkirkju framan kórþils. Söngloft er yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju og setsvalir við hliðar og tvær súlur undir frambrún þeirra hvorum megin. Veggir kirkju eru klæddir spjaldaþili. Þverbitar eru yfir innri hluta framkirkju og kór og strikasylla efst á veggjum á milli þeirra og fyrir kórgafl. Stjörnur prýða kórgafl yfir strikasyllu. Yfir kirkjunni stafna á milli er reitaskipt stjörnusett súð og skammbitaloft.[1] Hjörleifur Stefánsson. Kirkjur Íslands 9. Möðruvallakirkja í Hörgárdal, 194-215. Reykjavík 2007.