Norðurland eystra
  • 0512

Klukknaport, Möðruvöllum

Eyjafirði

Byggingarár: 1781.

Hönnuður: Ókunnur.[1]

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1962.

Tekið á fornleifaskrá 9. nóvember 1962 skv. 2. gr. laga um viðhald fornra mannvirkja og um byggðasöfn nr. 8/1947 og þinglýst 14. nóvember 1962.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Klukknaportið er timburmannvirki, 2,43 m að lengd og 1,88 m á breidd, með lágu risþaki með bröttum gaflsneiðingum. Við hvora hlið portsins er steinhlaðinn veggur um 3,10 m að lengd, 1,0 m á breidd og 1,10 m á hæð og er utanmál portsins með veggjunum 3,10 x 3,90 m. Portið er byggt af stafaverki; hornstoðir hvíla á stoðarsteinum, endar veggsyllna ganga út í gegnum hornstoðir en grannar gólfsyllur eru felldar í stoðir að neðanverðu. Grönn stoð er í miðju hvors hliðarveggjar og skástífur frá gólfsyllu upp undir kverk milli yfirsyllu og hornstoðar. Hliðarveggir eru klæddir með gisnum lóðréttum listum sem negldir eru á syllu og granna syllu á miðjum vegg rétt ofan við steinvegg. Á vesturhlið eru tvær stoðir greyptar á milli gólfsyllu og þversyllu ofarlega. Milli hornstoða og stoða eru greyptar fjórar raðir þverrimla en fjórir lóðréttir rimlar á milli þversyllu og veggbita og eru rimlarnir styrktir að innanverðu með þverlista. Dyr eru á miðri austurhlið milli dyrastafa sem greyptir eru á milli gólfsyllu og þversyllu. Milli hornstafa og dyrastafa eru greyptar fimm raðir þverrimla og fjórir lóðréttir rimlar á milli þversyllu og þverbita. Fyrir dyrum er okahurð með skástífu og gisnum lóðréttum rimlum. Þakið er klætt rennisúð og auk veggbita eru í portinu tveir þverbitar og hanga á milli bitanna þrjár klukkur í ramböldum. Í portinu er hellulagt gólf.       [1] Hörður Ágústsson. Klukknaportið á Möðruvöllum í Eyjafirði, 55-66. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1966. Reykjavík 1967.

[2] Ágúst Ó. Georgsson. Forleifaskrá 1990, 49.