Norðurland eystra
  • 2313

Lónsstofa, Skipalóni, Eyjafirði

Byggingarár: 1824.

Hönnuður: Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni.[1]

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1985.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Lónsstofa er einlyft stokkbyggt timburhús og utan á því eru steinsteyptir veggir, 10,44 m að lengd og 6,72 m á breidd. Á húsinu er risþak og miðjukvistur með risþaki upp af framhlið. Reykháfur er á mæni uppi yfir dyrum og annar við norðurgafl. Veggir eru múrhúðaðir og á þeim neðarlega er sökkulbrún en kvistveggir eru bárujárnsklæddir. Dyr eru á austurhlið, sunnan við mitt hús, og fyrir þeim slétt hurð með spjaldi og yfir dyrum er skorið á fjöl Skipalón 1824. Á húsinu eru átta gluggar með tveimur póstum og þverrimum um níu rúður; þrír á hvorri hlið og tveir á suðurgafli. Gluggi svipaðrar gerðar en með sex rúðum er á hvorri gaflhyrnu og að auki eru að sunnanverðu tveir fjögurra rúðu gluggar en einnar rúðu gluggi að norðanverðu efst. Blindgluggi er á vesturhlið. Á kvisti er fjögurra rúðu krosspóstagluggi og efst á gaflhyrnunni lítill tveggja rúðu gluggi og fánastöng upp af honum. Þak húss og kvists eru klædd bárujárni.

Við norðurgafl hússins er steinsteypt einnar hæðar fjósbygging með lágu risþaki. Í suðurenda hennar, meðfram norðurgafli Lónsstofu, er gangur og útidyr að austanverðu.  

Inn af aðaldyrum á austurhlið er lítil forstofa. Tvennar stofur eru við suðurgafl, fyrir miðri vesturhlið er nýlegt eldhús en gegnt því fyrir miðri austurhlið er gamla eldhúsið, salerni og stigi upp á loft. Inn af eldhúsi er búr í norðausturhluta hússins og undir hluta þess er kjallari. Gangur er í miðju húsi frá eldhúsi að dyrum á norðurgafli og kames í norðvesturhorni. Upp af stiga er framloft, kvistherbergi að austanverðu og súðarkompa að vestanverðu út að suðurgafli. Herbergi er fyrir miðjum suðurgafli og súðarkompa inn af því að austanverðu. Tvö herbergi eru við norðurgafl. Skammbitaloft er yfir rishæð stafna á milli. Forstofa, gamla eldhúsið og búr eru klædd standþiljum og gangur að auki listuðum standþiljum. Í búri og á gangi eru veggstokkar óklæddir og sjást þeir einnig í forstofu. Veggir í austurstofu eru klæddir reituðu spjaldaþili með sneiddum spjöldum og er brjóstlisti negldur á miðsyllu. Hluti vesturstofu er klæddur á sama hátt og að auki spjaldaþili með sléttum þiljum og hluti veggja er plötuklæddur. Nýja eldhúsið er klætt á svipaðan hátt og vesturstofan. Salerni og kames eru klædd plötum. Loft í suðurstofum eru klædd reitaþiljum á milli bita. Biti í suðurstofu og nýja eldhúsi er strikaður á brúnum. Rákaðar plötur eru milli loftbita í nýja eldhúsi en sléttar í kamesi. Yfir öðrum herbergjum á jarðhæð eru loft borðaklædd á bita. Veggir rishæðar eru klæddir standþili eða standþiljum, ýmist listuðum eða sléttfelldum. Norðurgafl er þó klæddur láréttum borðum og suðurgafl í austurkompu er óklæddur. Kvistherbergi er plötuklætt og hluti suðurherbergis. Yfir rishæð allri er skarsúð á sperrum og borðaklæðning á skammbitum en í kvistherbergi er loft plötuklætt milli bita. Veggir og loft á jarðhæð eru máluð nema í búri og gangi. Uppi eru framloft, kvistherbergi og suðurherbergi máluð og kvistherbergi að hluta veggfóðrað en önnur herbergi eru ómáluð.[1] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 169. Reykjavík 1998.

[2] Þjóðminjasafn Íslands. Skjalasafn húsasafns. Lónsstofa á Skipalóni.