Norðurland eystra
  • 0205

Bægisárkirkja

Ytri-Bægisá, Öxnadal, Eyjafirði

Byggingarár: 1858.

Hönnuður: Sigurður Pétursson timburmaður á Akureyri en Benóný Jónsson forsmiður hannaði forkirkju.

Breytingar: Í öndverðu var kirkjan klædd slagþili og rennisúð, lítill kvistur var yfir prédikunarstól innan miðglugga og í kirkjunni voru póstagluggar og hún stóð á steinhlöðnum sökkli.

Sökkul var steinsteyptur og þak klætt bárujárni 1931–1932, kirkjan var múrhúðuð að utan 1954 og í hana settir nýir gluggar frábrugðnir þeim sem áður voru. Múrhúðun var brotin af 1983, veggir einangraðir að utan og klæddir trapisuplötum.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Bægisárkirkja er timburhús, 9,58 m að lengd og 5,54 m á breidd, með forkirkju í stöpli við framstafn, 1,93 m að lengd og 2,40 m á breidd. Þakið er krossreist, klætt bárujárni og kvistur á suðurhlið. Slétt járn er á sveigðu þaki forkirkjunnar. Kirkjan er klædd trapisuplötum og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með sex rúðum, þrír á kórbaki með fjórum rúðum en á kvisti og framstafni forkirkju er póstagluggi með tveimur þriggja rúðu römmum. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð.

Í stöpli hanga tvær klukkur í ramböldum og stigi er til sönglofts yfir framkirkju. Spjaldsett hurð er að framkirkju og gangur inn af að kór. Lágt kórþil klætt spjaldaþili er í baki innstu bekkja. Í kórdyrum eru kórstafir og bogi á milli. Þeir eru ferstrendir að neðan og sívalir að ofan og á þeim einföld súluhöfuð. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin og stólstafir í stóldyrum. Þverbekkir eru hvorum megin gangs, innstu bekkir tvísættir og bök þeirra klædd að gólfi, en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Fjórar stoðir eru undir sönglofti. Girt er fyrir loftið með spjaldaþili, renndum pílárum og tveimur stoðum sem ganga upp undir skammbita. Veggir kirkju eru klæddir póstaþili. Loft yfir forkirkju er klætt plötum og yfir kirkju er loft opið upp í mæni og klætt skarsúð á sperrur.[1] Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 9. Bægisárkirkja, 50-66. Reykjavík 2007.