Norðurland eystra
  • 0187

Miðgarðakirkja

Grímsey

Byggingarár: 1867.

Hönnuður: Árni Hallgrímsson forsmiður frá Garðsá.

Breytingar: Í öndverðu var kirkjan klædd slagþili og rennisúð og stóð á steinhlöðnum sökkli.[1]

Turn og kór voru smíðaðir við kirkjuna 1932 og klæddir á sama hátt og hún.

Hönnuður: Helgi Ólafsson smiður og bóndi í Grímsey.

Um 1986 voru veggir klæddir sléttum plötum, gluggum breytt og hvelfing smíðuð í framkirkju.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Miðgarðakirkja er timburhús, 7,69 m að lengd og 4,77 m á breidd, með kór undir minna formi, 3,11 m að lengd og 3,39 m á breidd, og tvískiptan turn við framstafn, 2,67 m að lengd og 2,75 m á breidd. Þök framkirkju og kórs eru krossreist og klædd trapisustáli en turnþök klædd sléttu járni. Kirkjan er klædd sléttum trefjaplastsplötum, stendur á steinsteyptum sökkli og er stöguð niður á hliðum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar, einn á hvorri hlið kórs, einn á suðurhlið stöpuls en tveir á norðurhlið og einn á framhlið turns. Í gluggum er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Stöpull nær upp fyrir mæni kirkju, á honum er slétt þak girt handriði og á stöplinum er ferstrendur turn með píramítaþaki klæddu sléttu járni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. 

Í forkirkju sunnan megin er stigi upp á setuloft yfir fremsta hluta framkirkju. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Í kórdyrum er lágt kórþil með renndum pílárum og kórstöfum. Þverbekkir eru hvorum megin gangs en lausabekkir á setulofti. Veggir forkirkju, setulofts og kórs eru klæddir strikuðum panelborðum en framkirkja klædd póstaþili. Efst á veggjum í innri hluta framkirkju og kór er strikuð og hvelfd sylla. Yfir setulofti er súðarloft, bogadregið undir rjáfri, klætt plötum milli sperra. Plötuklædd reituð oddbogahvelfing er yfir innri hluta framkirkju en panelklædd bogahvelfing yfir kór.


Kafli um Miðgarðakirkju í Kirkjum Íslands .[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 183.Bréf 1869. Byggingarreikningur Miðgarðakirkju 1867; Skjalasafn prófasta. Eyjafjarðarprófastsdæmi AA/12. Miðgarðar 1868.

[2] Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 9. Miðgarðakirkja, 156-171. Reykjavík 2007.