Norðurland eystra
  • 2160

Tjarnarkirkja

Svarfaðardalur

Byggingarár: 1893.

Hönnuður: Jón Stefánsson forsmiður frá Dalvík og hugsanlega einnig Gísli Jónsson forsmiður frá Hofi sem að mestu vann innansmíð.

Breytingar: Hvelfing var smíðuð í kirkjuna 1897. Í öndverðu voru þök klædd pappa en þau voru klædd bárujárni um 1905–1909. Setuloft var fjarlægt á tímabilinu 1925–1933 en söngpallur útbúinn í norðvesturhorni.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Tjarnarkirkja er timburhús, 8,92 m að lengd og 5,09 m á breidd, með forkirkju í stöpli við framstafn, 1,83 m að lengd og 2,60 m á breidd. Þakið er krossreist en risþak á stöpli, hvorttveggja klædd bárujárni. Kirkjan er klædd láréttum strikuðum borðum sem felld eru milli lóðréttra stafa við glugga. Strikað kverkborð er undir þakskeggi og hornborð með súluhöfðum á kirkju. Hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur þriggja rúðu römmum og um þá faldar og vatnsbretti, hið neðra stutt kröppum, og einn á framhlið stöpuls með bjór yfir. Tveir litlir fjögurra rúðu gluggar eru á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og stórstrikaður bjór yfir studdur kröppum og hálfsúlum.

Í forkirkju sunnan megin er stigi upp á stöpulloft. Að framkirkju er spjaldsett hurð og gangur inn af henni að kór. Aftursættir bekkir eru hvorum megin gangs en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Fremst í framkirkju norðan megin er söngpallur og veggbekkir utan með. Veggir forkirkju eru klæddir standþiljum en kirkjuveggir spjaldaþili upp undir miðsyllu við neðri brún glugga en standþili að ofan. Efst á veggjum er strikasylla. Í gluggum innanvert eru steind gler. Yfir kirkju stafna á milli er borðaklædd stjörnum prýdd hvelfing.


[1] Hjörleifur Stefánsson. Kirkjur Íslands 9. Tjarnarkirkja, 273-292. Reykjavík 2007.