Norðurland eystra
  • 1935

Vallakirkja

Vallakirkja

Byggingarár:1997–2000.

Hönnuður: Jon Nordsteien arkitekt.

Athugasemd: Vallakirkja, smíðuð 1997–2000, er nákvæm eftirlíking Vallakirkju sem Þorsteinn Þorsteinsson smiður á Upsum smíðaði árið 1861 og brann 1. nóvember 1996.[1]

Friðuð af menntamálaráðherra 22. maí 2003 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun tekur til ytra og innra borðs.[2]

 

Vallakirkja er timburhús, 10,88 m að lengd og 6,12 m á breidd, með forkirkju í stöpli við vesturstafn, 1,87 m að lengd og 2,66 m á breidd. Krossreist þak er á kirkju en lágreist risþak á stöpli bæði klædd bárujárni. Kirkjan er klædd slagþili sem gengið er frá með vatnsbretti að neðan og skásettu súgborði uppi undir þakskeggi. Hún stendur á steinhlöðnum sökkli og framundan kirkjudyrum eru trétröppur með fimm þrepum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur átta rúðu römmum og aðrir tveir á kórbaki en póstagluggi með tveimur sex rúðu römmum uppi á stafninum og annar á framstafni stöpuls og yfir honum bjór. Fjögurra rúðu gluggi er efst á gaflhyrnu framstafns kirkjunnar. Um glugga eru faldar og vatnsbretti, það efra stutt kröppum. Fyrir kirkjunni eru spjaldsettar vængjahurðir.

Í forkirkju er stigi upp á stöpulloft og af því gengið inn á setuloft yfir fremri hluta framkirkju. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem skilinn er frá framkirkju með kórþili. Í því eru renndir pílárar að neðan og uppi undir þverbita eru fimm bogar milli stoða og kórstafa. Hvorum megin gangs eru aftursveigðir þverbekkir en veggbekkir umhverfis í kór frá kórdyrum að altari. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin. Setuloft á þremur bitum nær inn að miðglugga og yfir því er súð. Veggir kirkju eru klæddir spjaldaþili. Yfir innsta stafgólfi framkirkju og kór er borðaklædd hvelfing og strikasylla undir henni efst á veggjum.[1] Magnús Skúlason. Kirkjur Íslands 9. Vallakirkja, 345-356. Reykjavík 2007.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Vallakirkju.