Norðurland eystra
  • 0029

Hríseyjarviti

Hrísey

 

Byggingarár: 1920.

Hönnuðir: Thorvald Krabbe og Guðmundur J. Hlíðdal verkfræðingar. 

Breytingar:

Vitinn var upphaflega hvítur að lit með rauðu bandi á miðjum veggjum. Handrið á svölum var úr járni en hefur vikið fyrir öðru smíðuðu úr málmstoðum og tré og slétt hurð hefur verið sett í stað spjaldahurðar.[1]

Friðun:

Friðaður af menntamálaráðherra 1. desember 2003 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin tekur til ytra og innra borðs vitans og ljóshúss, þar með eru talin, linsa, linsuborð og lampi, stigar, handrið, hurð og gluggi. Friðunin tekur einnig til umhverfis vitans í 100 m radíus út frá honum, en að bjargbrún norðan hans.[2] 

 

Hríseyjarviti er 5 m hár steinsteyptur turn, 2,7x2,7 m að utanmáli. Á honum er 3,3 m hátt ljóshús úr járni. Vitinn stendur á steinsteyptri undirstöðu sem nær um 0, 25 m út fyrir veggi. Veggir eru múrdregnir/yfirdregnir með múr en það mótar fyrir borðamótum í gegnum múrinn. Dyr eru á suðurhlið og fyrir þeim slétt hurð. Yfir þeim er fjögurra rúðu krosspóstagluggi og undir honum steinsteypt vatnsbretti. Efst á veggjum er framstætt band undir stölluðu þakskeggi. Á brún þess er einfalt handrið úr málmstoðum og tréslám. Járnstigi er af jörðu upp á svalir umhverfis ljóshúsið.

Hið innra er vitinn eitt rými og járnstigi er upp í ljóshúsið að lúgu í gólfi þess. Veggir og loft eru múrhúðuð og máluð. Ljóshúsið er áttstrent að grunnformi, 1,69 m að þvermáli og vegghæð þess 1,5 m. Gluggaband, 0,80 m á hæð, er efst á veggjum allan hringinn með átta trapisulöguðum rúðum sem hallast út að ofan. Þakið er áttstrent, smíðað úr járni og rís upp í lága keilu og á því efst er lofttúða. Í ljóshúsinu er 360° katadíoptrísk 500 mm linsa með 110 volta 1000 watta aðalperu og 24 volta 150 watta varaperu.


Heimildir

  1. Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson. Vitar á Íslandi. Hríseyjarviti, 306. Kópavogur 2002.
  2. Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Hríseyjarvita.