Norðurland eystra
  • 2258

Lundarbrekkukirkja

Bárðardalur, S-Þingeyjarsýslu

Byggingarár: 1879–1882.[1]

Hönnuður: Baldvin Sigurðsson steinsmiður en tréverk vann Þorgrímur Jónsson forsmiður frá Gilsá.[2]

Breytingar: Í öndverðu var þak klætt pappa en var klætt bárujárni 1903. Árið 1963 voru settar tálgaðar birkistjörnur á hvelfingu. Um 1980 var sett þil úr panelborðum neðanvert á veggi og steinflísabrot múruð á gluggakistur.[3] 

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Lundarbrekkukirkja er steinhlaðið hús, 10,44 m að lengd og 6,52 m á breidd. Bárujárnsklætt risþak er á kirkjunni og upp af vesturstafni er ferstrendur timburturn klæddur sléttu járni og á honum íbjúgt píramítaþak. Veggir kirkjunnar eru sléttaðir með þunnum múr og skín steinhleðslan í gegn. Efst á veggjum undir þakskeggi er strikuð múrbrún og strikaðar múrbrúnir eru yfir gluggum og dyrum. Á hvorri hlið kirkju eru tveir bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar en bogadregnir trégluggar með krosspósti ofarlega á kórbaki og framstafni. Yfir gluggum og dyrum er bogadregin strikuð múrbrún. Hringgluggi úr steypujárni er á framhlið turns og hlerar fyrir hljómopi á hvorri hlið hans. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð. 

Inn af kirkjudyrum er gangur og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Yfir fremsta hluta framkirkju er setuloft og stigi í norðvesturhorni. Tvær flatsúlur eru við vegg undir frambrún setulofts og tvær hvorum megin gangs. Sitt hvor turnstoðin er upp af þeim. Veggir eru sléttaðir og efst á þeim strikasylla. Neðri hluti veggja, upp fyrir neðri brún glugga, er klæddur panelborðum. Yfir setulofti er súð og skammbitaloft klætt reitaþiljum en reitaskipt og stjörnuprýdd lágbogahvelfing yfir innri hluta framkirkju og kór.[1] Guðni Halldórsson. Bréf til höfundar 1999.

[2] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 298. Reykjavík 1998.

[3] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Lundarbrekkukirkja.