Norðurland eystra
  • 1474

Flateyjarkirkja á Skjálfanda

Byggingarár: Byggð 1897 að Brettingsstöðum á Flateyjardal. Tekin niður og endurreist í Flatey um 1957.

Kirkjusmiður: Jóhann Bassason á Skarði.

Friðun

Á fundi Húsafriðunarnefndar 15. maí 2012 var samþykkt að Flateyjarkirkja á Skjálfanda skuli sett á skrá nefndarinnar yfir friðuð hús, skv. 6. gr. laga um húsafriðun nr. 104/2001.

Saga

Kirkjan var upphaflega reist að Brettingsstöðum á Flateyjardal árið 1897. Kirkjusmiðurinn var Jóhann Bessason á Skarði.

Kirkjan var byggð úr timburgrind klædd láréttum strikuðum panel að utan reist á grjóthlöðnum sökkli; þakið krossreist, klætt bárujárni. Hún var án forkirkju, turns eða kórs í upphafi. Gluggar hafa sennilega verið einpósta sexrúðugluggar og ekki bogadregnir eins og þeir eru í dag.

Sérkenni kirkjunnar að innan voru einkum þau, að prédikunarstóll var gerður af renndum pílárum og miðjusettur framan við grátur. Hann var því opinn til að skyggja sem minnst á altarið. Þetta mun þó Jóni Helgasyni biskupi ekki líkað þegar hann vísiteraði kirkjuna þann 5. ágúst 1921, þótt hann lyki að öðru leyti lofsorði á smíði, búnað og viðhald kirkjunnar að ógleymdu harmonium hennar. Hann lét færa stólinn í norðaustur horn hennar en kirkjan sneri öfugt. Þ.e kirkjudyr voru mót austri.

Kirkjan fauk af grunni árið 1933 og var þá steyptur undir hana sökkull.

Árið 1953 fór í eyði síðasti bærinn á Flateyjardal og tveimur árum seinna var Brettingastaða-(Flateyjarsókn) sameinuð Húsavíkurprestakalli. Stuttu síðar var kirkjan  tekin niður og endurreist í Flatey, þar sem var þá blómleg byggð, og endurvígð þar 17. júlí 1960. Björgvin Pálsson húsasmíðameistari í Hrísey var fenginn til að hafa umsjón með verkinu en sóknarbörn lögðu á sig ómælda vinnu og erfiði við að rífa kirkjuna og flytja hverja fjöl á árabátum milli lands og eyjar.

Kirkjunni var breytt allmikið þegar hún var endurreist, sett á steyptan sökkul, byggð við hana forkirkja, turn, kór og gluggar gerðir bogadregnir. Þá mun hún hafa verið múrhúðuð að utan.

Árið 1987 fór fram mikil viðgerð á kirkjunni sem m.a. fólst í því að múrhúðun var tekin af og hún klædd sléttum blikkplötum með innbrenndum hvítum lit og þannig er hún í dag á ytrta borði.


Heimild:

Bréf séra Sighvats Karlssonar til Kirkjuráðs, dags. 25. febrúar 1999.