Reykjanes

Hafnargata 2, Fischershús, Keflavík

Reykjanesbæ

Byggingarár: 1881 Bryggjuhús, Keflavík

Byggingarefni: Timbur 

Friðlýsing:

Friðlýst af forsætisráðherra 14. júní 2016 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins, upprunalegra innviða, búðarinnréttingar og leifar hlaðinna steinveggja á lóð þess.

 

Árið 1881 lét Waldimar Fischer, eigandi miðverslunar í Keflavík, byggja tvíloftað timburhús úr bindingsverki fyrir verslun sína og sem íbúðarhús. Allt timbur í húsið var tilsniðið og merkt í Danmörku. Grindin var sett saman með geirneglingum og þurfti að sögn enga nagla við smíði hennar. Útveggir voru klæddir listasúð og þakið klætt steinskífum í anda Alþingishússins sem byggt var sama ár. Verslun var á neðri hæð hússins og er þar enn að finna hluta gamallar búðarinnréttingar. Fischershús var fyrsta tvílyfta húsið í Keflavík. Nýbyggt var það talið „ ... svo vandað og veglegt að allri smíð, frágangi og fegurð, að annað eins hefur ekki verið byggt sunnanlands ...Árið 1900 var Fischersverslunin seld Ólafi Á. Olavsen. Seinna sama ár var hún seld HP Duus. Flutti Duusverslun starfsemi sína í húsið. Á 20. öld var húsið lengi í höndum útgerðarmanna og fiskvinnslufyrirtækja og reyttust af því fjaðrirnar smám saman. Árið 2013 hófust framkvæmdir við 1. áfanga endurbyggingar hússins samkvæmt áætlunum og uppdráttum Páls V. Bjarnasonar arkitekts. Í húsinu eru upphaflegar innréttingar og þiljur í húsinu.

Varðveislugildi hússins er talið mjög mikið, m.a. vegna þess hve byggingin er heilstæð, vel útfærð og heildarform hennar hefur haldist óbreytt.