Reykjanes
  • 0008

Garðskagaviti

Garðskagaviti

Byggingarár:1897.

Hönnuðir: Verkfræðingar dönsku vitamálastofnunarinnar.

Breytingar: Við vitann var byggð varðstofa úr timbri en síðar byggð steinsteypt varðstofa með lágreistu risþaki. Árið 1933 var byggt anddyri við varðstofuna og steypt þak yfir hana eftir teikningum Benedikts Jónassonar verkfræðings. Vitinn var tekinn úr notkun árið 1944 og ljóshús fjarlægt.[1]

Friðaður af menntamálaráðherra 1. desember 2003 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun tekur til ytra og innra borðs vitans og viðbygginga. Friðunin nær einnig til steinhlaðins sökkuls undir vitanum, göngupalls umhverfis vitann og göngubrúar ásamt handriðum, og steinsteyptra varnarpalla utan um sökkul. Umhverfi vitans í 100 m radíus út frá honum skal vera friðað, að undanteknu þjónustuhúsi við enda göngubrúar landmegin.[2]

 

Gamli Garðskagavitinn er ferstrendur kónískur turn, 11,4 m hár, 3,1 m breiður að neðan en 2,8 m efst uppi undir þakskeggi. Hæð vitans með ljóshúsi var 15 m. Þakskeggið er skásett neðanvert og þynnist út á við að lóðréttri brún yst. Upp af því er steinsteypt handrið með frambrún efst. Á turninum var danskt ljóshús úr steypujárni, en það var fjarlægt árið 1944. Í vitanum eru tvö steinsteypt milligólf og tréstigar milli hæða.[1] Sigl. Ísl. Teikningasafn. Afrit af vitateikningum frá Fyrdirektoratet í Kaupmannahöfn, nr. 567. Garðskagaviti; Thorvald Krabbe. Vitar Íslands í 50 ár, 16-18; Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson. Vitar á Íslandi, 47-50, 215-216. Kópavogur 2002.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Garðskagavita eldri.