Reykjanes
  • 2345

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvík

Byggingarár: 1885-1886.

Hönnuður: Magnús Magnússon steinsmiður.[1]

Breytingar: Kirkjan var lögð niður sem sóknarkirkja árið 1917 en endurvígð 1944. Turni var breytt 1944 og ýmsu öðru í ytri og innri gerð.

Hönnuður: Embætti Húsameistara ríkisins.

Kirkjan var færð í upprunalegt horf að utan 1981-1986 og að innan 1989-1990.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Njarðvíkurkirkja er steinhlaðið hús, öll í sama formi, 12,20 m að lengd og 7,96 m á breidd. Lágreist skífuklætt mænisþak er á kirkju. Upp af vesturstafni er ferstrendur turn með mænisþaki en undir honum lágur stallur. Turninn er allur klæddur bárujárni. Kirkjan er hlaðin úr steinlímdu tilhöggnu grjóti og stendur á lágum sökkli. Tvær neðstu steinaraðir eru slétthöggnar er gróf áferð á steinum þar fyrir ofan. Sökkulbrún er neðarlega á vegg, steinbrún undir þakskeggi og raðsteinsbogar yfir gluggum og dyrum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir smárúðóttir gluggar með skásettum rimum, einn minni á vesturstafni og loks er lítill gluggi sömu gerðar á framstafni turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Inn af dyrum er lítil forkirkja stúkuð af framkirkju og vængjahurðir að framkirkju. Inn af þeim er gangur og sveigðir bekkir hvorum megin hans. Kórpallur, sveigður á frambrún, er hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep. Söngloft á fjórum stoðum er með þverum framgafli og stigi með gaflinum sunnan megin. Veggir eru sléttaðir og efst á þeim er strikasylla undir reitaðri stjörnuprýddri hvelfingu yfir innri hluta framkirkju og kór. Yfir sönglofti er súðarloft klætt langsúð á sperrur og borðaklætt skammbitaloft yfir miðhluta.[1] ÞÍ. Bps. C. V, 82. Bréf 1886. Byggingarreikningur Njarðvíkurkirkju 1885-1886.

[2] Guðmundur A. Finnbogason. Ágrip af sögu Innri-Njarðvíkurkirkju; Hörður Ágústsson. Innri-Njarðvíkurkirkja 1886-1986. Fjölritaður blöðungur; Innri-Njarðvíkurkirkja, Athugun og tillögur til breytinga, dagsett 7. nóvember 1980; Innri-Njarðvíkurkirkja, Annar áfangi endurgerðar, dagsett 7. júlí 1987. Ljósrit í skjalasafni Húsafriðunarnefndar; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 11. Njarðvíkurkirkja, 303-318. Reykjavík 2008.