Reykjavík
  • Hákot, Garðastræti 11 a

Garðastræti 11 A

Hákot

Byggingarár: 1893

Friðun

Friðað af menntamálaráðherra 15. desember 1999 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, friðun tekur til ytra borðs.

Byggingarefni

Hlaðið steinhús.

Árið 1893 byggði Guðmundur Ásmundsson hús þetta á lóð Hákots í Grjótaþorpi, sem þá var í eigu fósturföður hans, Jóns Þórðarsonar tómthúsmanns, en tveimur árum síðar gaf Jón fóstursonunum Guðmundi og Jóni lóðina. Húsið var byggt úr steini með járnþaki á súð með pappa á milli. Tvö þiljuð herbergi voru á neðri  hæðinni auk eldhúss og búrs. Á portbyggðu lofti voru einnig tvö þiljuð herbergi. Kjallari var undir hálfu húsinu.

Líklegt er að þeir fósturfegðar Guðmundur Ásmundsson og Jón Þórðarson hafi byggt húsið í sameiningu því Jón er skráður fyrsti íbúi hússins. Jón í Hákoti var forystumaður tómthúsmanna í Reykjavík og var bæjarfulltrúi  en sagði sig úr bæjarstjórn árið 1870 til að mótmæla því að leggja átti skatt á allan afla sem komið var með að landi.

Talið er að Högni Hansson trésmiður, sem keypti hálft húsið árið 1906, hafi gert stigahús við húsið að sunnanverðu ásamt fleiri breytingum.

Í manntölum kemur fram að jafnan hafi búið fleiri en ein fjölskylda í húsinu, jafnvel um 8 til 12 manns í einu.


Heimild: Garðastræti 11 A, Hákot. Ágrip af sögu hússins og eigenda. Líklega tekið saman af Ragnheiði Þorláksdóttur og Helga Þorlákssyni árið 1980. Úr gagnasafni Húsafriðunarnefndar.

 

Tímamót urðu í byggingu steinhúsa þegar Alþingishúsið var byggt á árunum 1880−1881. Íslendingar lærðu þar iðnina að höggva til grjót. Á árunum 1880−1900 voru allmörg steinhús byggð í Reykjavík. Varð þá til ný húsagerð, steinbæir, sem á skömmum tíma varð algeng í Reykjavík. Það voru einkum tómthúsmenn sem byggðu sér steinbæi til íbúðar en áður bjuggu þeir í torfbæjum. Segja má að lag torfbæjarins hafi þarna verið lagað að nýjum aðstæðum og er hér um sérreykvískt fyrirbæri að ræða. Á þessum tíma voru einnig byggð allmörg lítil íbúðarhús úr steini. Munurinn á þeim og steinbæjum er sá að í litlu steinhlöðnu húsunum eru allir veggir byggðir úr tilhöggnu grágrýti. Segja má að með þessari sérreykvísku húsagerð hafi fyrstu þéttbýlisalþýðu Íslands, sem á þessum árum var að slíta sig undan vistarbandinu, verið kippt inn í nútímann, þar sem þá buðust betri og varanlegri húsakynni en fram að þeim tíma höfðu þekkst. Alls voru hlaðin um 200 hús úr grágrýti í Reykjavík á tímabilinu frá 1860 til 1910 − um 130 steinbæir og 70 hús. Síðan hafa steinbæir og steinhlaðin hús verið að týna tölunni, og er nú svo komið að einungis 17 steinbæir og 18 steinhlaðin hús standa enn í Reykjavík. Vegna sérstöðu steinbæjanna og steinhlöðnu íbúðarhúsanna í menningar- og byggingasögu Reykjavíkur má ljóst vera að eftir­standandi hús hafa öll mjög mikið varðveislugildi.