Reykjavík
  • Laugavegur 34

Laugavegur 34

Verslun Guðsteins Eyjólfssonar

Byggingarár: 1929

Hönnuður: Þorleifur Eyjólfsson

Friðun

Friðað af menntamálaráðherra 19. maí 2011 með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis framhússins við Laugaveg.

Byggingarefni

Steinsteypuhús.

 

Húsið er úr steinsteypu með sérstæðum stíleinkennum höfundar. Húsið er því afar sérstakt, gætt ríkri formkennd í eins konar júgendstíl, sem varðveist hefur í því sem næst óbreyttri mynd.

Húsið var teiknað fyrir Guðstein Eyjólfsson kaupmann og klæðskera og hefur allt frá upphafi verið starfrækt herrafataverslun á jarðhæð hússins sem ber nafn Guðsteins. Einnig var rekin sælgætis- og tóbaksverslun í húsinu.


Á annarri hæð hússins er mikil lofthæð og tekið mið af því við smíði hússins að unnt væri að fjarlægja svo til alla milliveggi, en útveggir hússins eru sérstyrktir með tilliti til þessa. Hafði Guðsteinn gert ráð fyrir þeim möguleika að breyta annarri hæðinni í veitingasölu, en þess vegna er inngangur frá Laugaveginum upp á aðra hæð með stórum dyrum og þaðan liggur breiður tröppugangur upp.

Guðsteinn bjó með fjölskyldu sinni á þriðju hæðinni. Í risinu voru í upphafi nokkur einstaklingsherbergi sem leigð voru út. Þar bjó um tíma Guðmundur Einarsson, myndhöggvari frá Miðdal. Önnur hæðin var einnig leigð út. Á öndverðum fjórða áratugnum leigði Edith Jónsson ballettkennari íbúðina, og bjó þar ásamt dóttur sinni Helenu. Í salnum á hæðinni kenndi Edith ballett. Hún átti flygill og um tíma var MA kvartettinn við æfingar í húsinu. Seinna bjó þýsk fjölskylda á hæðinni – landflótta Gyðingar. Við hernám Reykjavíkur var hluti af risinu tekin leigunámi fyrir hermenn breska setuliðsins, en þeir stöldruðu þó stutt við.

 

Heimildir:

Björn Jón Bragason (2012, 16. júlí). Lifandi Laugavegur. Verslun Guðsteins, stofnuð 1918. Sótt af http://101reykjavik.is/2012/07/verslun-gudsteins-stofnud-1918/.

Leiðsögn um íslenska byggingarlist (2000). Reykjavík: Arkitektafélag Íslands.

Nikulás Úlfar Másson og Helga Maureen Gylfadóttir (2001). Húsakönnun. Laugavegsreitir - miðsvæði.  Skýrslur Árbæjarsafns nr. 86. Reykjavík: Árbæjarsafn.


 

Sjá loftmynd.