Reykjavík
  • 2914

Elliðaárvirkjun og mannvirki sem henni tilheyra

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra eftirtalin mannvirki sem tilheyra Elliðaárvirkjun 14. júní 2012:

  • Rafstöðvarhúsið í Elliðaárdal (Rafstöðvarvegur 6, 1920-21), Elliðavatnsstíflu (1924-28), Árbæjarstíflu (1920-29) og þrýstivatnspípu (lögð 1978 í stað pípu sem lögð var árið 1920).
  • Stöðvarstjórahús Elliðaárvirkjunar í Elliðaárdal (Rafstöðvarvegur 8, 1921).
  • Smiðja/fjós í Elliðaárdal (1921).
  • Hlaða í Elliðaárdal (1932-33).
  • Straumskiptistöð/aðveitustöð í Elliðaárdal (reist 1937 eftir teikningum Sigurðar Guðmundssonar arkitekts, án síðari tíma viðbygginga).
  • Spennistöð við Bókhlöðustíg 2A.
  • Spennistöð við Vesturgötu 2.
  • Spennistöð við Klapparstíg 7E.  

 

Í árslok 1919 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að láta reisa 1000 hestafla virkjun við Elliðaárnar. Til að sjá um framkvæmd verksins voru fengnir verkfræðingarnir Aage Broager Christensen og Guðmundur Hlíðdal, en ekki er vitað hver teiknaði sjálft stöðvarhúsið. Auk þess var Steingrímur Jónsson rafmagnsverkfræðingur ráðinn til að hafa umsjón með innlögnum í hús bæjarbúa. Hann var síðan ráðinn rafmagnsstjóri í júní 1921, en fyrsti stöðvarstjóri Elliðaárstöðvarinnar var Ágúst Guðmundsson. Framkvæmdum við virkjunina lauk á vormánuðum 1921 og var stöðin vígð hinn 27. júní 1921.

Rafmagnið var leitt með ofanjarðarlínu í aðveitustöð á Skólavörðuholti, sem þá var í útjaðri bæjarins. Þaðan var raforkunni dreift í neðanjarðarleiðslum til átta spennibreytistöðva í bænum. Þær voru á Lækjartorgi, við Bókhlöðustíg, við Herkastalann, tvær við Vesturgötu, við Smiðjustíg, við Klapparstíg og við Vitastíg. Þrjár þessara spennistöðva hafa nú verið friðaðar, spennistöðin við Bókhlöðustíg, neðst á Vesturgötu og við Klapparstíg.

Byrjað var að tengja rafmagn við íbúðarhús í Reykjavík sumarið 1921 og í lok ársins höfðu alls 45% húsa í bænum verið tengd.

Elliðaárvirkjun var stækkuð árið 1923 og aftur 1933 og var þá vélaraflið orðið 3150 kW. Elliðaárstöðin er enn rekin frá októberbyrjun til aprílloka með þeim afköstum.

 

Rafstöðvarhúsið

Rafstöðvarvegur 6

 

Byggingarár: 1920-1921

Byggingarefni: Steinsteypa

Rafstöðvarhúsið er látlaus bygging í nýklassískum stíl með stórum bogadregnum gluggum og allháu risþaki.

Í brunavirðingu frá árinu 1933, þegar byggt hafði verið við vesturgafl rafstöðvarhússins, var húsinu m.a. lýst þannig: „Rafmagnsstöð úr steinsteypu, með járnþaki á borðasúð, með pappa á milli. Gólf hússins, loft í austurenda þess og allir skilveggir eru úr steinsteypu, aðeins 2 stuttir skilveggjabútar eru úr bindingi, ... Gólf undir húsinu er úr steinsteypu 1 m. á þykkt og stór vatnsþró, rammger, úr sama efni er undir gólfinu. Meira en helmingur aðalhæðar hússins er 1 stór salur frá gólfi til mænis fyrir túrbínur og aðrar rafmagnsvélar. Allir veggir hans eru lagðir postulínsflísum í 1.5 m. h. Að öðru leyti er salurinn múrsléttaður og hvíttaður. Leirtíglaflögur eru á öllu gólfi hússins.“

 

Árbæjarstífla


Byggingarár: 1920-1929

Höfundar: Aage Broager Christensen og Guðmundur Hlíðdal verkfræðingar

Byggingarefni: Steinsteypa

Fyrri áfangi Árbæjarstíflu var steyptur árið 1920, en árið 1929 var stíflan hækkuð og lengd og náði þá yfir báðar kvíslar árinnar. Þá stækkaði Árbæjarlón talsvert, en eftir sem áður var það einungis hugsað sem skammtímalón en Elliðavatn er vatnsforðabúr rafstöðvarinnar.

 

Þrýstivatnspípa


Byggingarár: 1920, 1931-1932 og 1978

Höfundar: Aage Broager Christensen og Guðmundur Hlíðdal verkfræðingar

Byggingarefni: Timbur

Frá Árbæjarstíflu voru lagðar tvær þrýstivatnspípur niður í stöðvarhúsið, sú fyrri 1920 og önnur á árunum 1931 til 1932. Þessar pípur voru úr tréborðum sem haldið var saman með járngjörðum. Árið 1978 var sett ein pípa í hinna tveggja. Sú pípa er einnig úr timbri. Hún er að hluta ofanjarðar, en hulin jarðvegi sem myndar lágan grasi vaxinn hrygg meðfram ánum að norðanverðu.

 

Elliðavatnsstífla


Byggingarár: 1924-1928

Byggingarefni: Jarðvegsstífla með timburþili en grjótvörn vatnsmegin.

Elliðavatn er vatnsforðabúr og miðlunarlón Elliðaárvirkjunar. Til að stækka það var Elliðavatnsstífla reist. Stíflan er jarðvegsstífla með flóðgáttum í Dimmu og Bugðu. Yfirborð vatnsins stækkaði um helming við gerð stíflunnar og fóru engjar jarðanna Elliðavatns og Vatnsenda undir vatn.

 

Stöðvarstjórahúsið

Rafstöðvarvegur 8

 

Byggingarár: 1921

Höfundur: Aage Broager Christensen verkfræðingur

Byggingarefni: Steinsteypa

Fyrsti stöðvarstjóri Elliðaárvirkjunar, Ágúst Guðmundsson, og kona hans Sigríður Pálsdóttir bjuggu í stöðvarstjórahúsinu ásamt tveimur öðrum fjölskyldum. Þau voru með kúabúskap á staðnum og því var byggt þar fjós og hlaða. Síðar bjó Aðalsteinn Gudjohnsen rafveitustjóri í húsinu. Árið 2000 var hætt að nota húsið sem íbúðarhús en farið að nota það sem funda- og móttökuhús Orkuveitu Reykjavíkur.

Upprunaleg teikning af húsinu er undirrituð af Aage Broager Christensen, sem ásamt Guðmundi Hlíðdal sá um byggingaframkvæmdir við rafstöðina.

Í brunavirðingu frá árinu 1933  kemur fram að húsið sé úr steinsteypu, með tvöföldum útveggjum og er bilið milli þeirra fyllt og faststoppað með þurri mómylsnu. Veggir eru kalksléttaðir að utan og innan. Þá eru tvö eldhús í húsinu.

 

Fjós / smiðja


Byggingarár: 1921

Byggingarefni: Steinsteypa

Fyrsti stöðvarstjóri Elliðaárvirkjunar, Ágúst Guðmundsson, og kona hans Sigríður Pálsdóttir voru með kúabúskap í Elliðaárdalnum og því var byggt fjós um leið og stöðvarstjórahús var reist. Nú er húsið nýtt sem verkstæði og vélageymslur.

 

Hlaða


Byggingarár: 1932

Byggingarefni: Timbur

Fyrsti stöðvarstjóri Elliðaárvirkjunar, Ágúst Guðmundsson, og kona hans Sigríður Pálsdóttir voru með kúabúskap í Elliðaárdalnum og því var byggt fjós og  síðar hlaða í grennd við stöðvarstjórahúsið. Nú er húsið nýtt sem geymsla.

 

Straumskiptistöð/aðveitustöð

Rafstöðvarvegur 14

 

Byggingarár: 1937

Höfundur: Sigurður Guðmundsson arkitekt

Byggingarefni: Steinsteypa

Straumskiptistöðin var byggð til að taka á móti raforku frá Ljósafossstöð í Sogi.

 

Spennistöðvar

Bókhlöðustígur 2A – Vesturgata 2 – Klapparstígur 7E


Byggingarár: 1921

Höfundur: Guðjón Samúelsson arkitekt

Byggingarefni: Steinsteypa

 

Reistar voru spennistöðvar á Lækjartorgi, við Bókhlöðustíg, við Herkastalann, tvær við Vesturgötu, við Smiðjustíg, við Klapparstíg og við Vitastíg til að færa spennuna frá rafstöðinni niður í hæfilega spennu til notkunar í íbúðarhúsum. Guðjón Samúelsson teiknaði allar stöðvarnar. Fjórar þeirra voru með sama lagi og þær þrjár sem enn standa hafa nú verið friðaðar, þ.e. spennistöðin við Bókhlöðustíg, neðst á Vesturgötu og við Klapparstíg. Guðjón valdi að teikna stöðvarnar í nýbarokkstíl, með hvolfþaki, flatsúlum  á hornum, spjaldahurðum og litlum bogadregnum gluggum og er greinilegt að mikið hefur verið lagt í þessi smáhýsi.

 

Heimildir:

Árni Hjartarson, Helgi M. Sigurðsson (ritstjóri) og Reynir Vilhjálmsson (1998). Elliðaárdalur. Land og saga. Reykjavik: Mál og mynd í samstarfi við Árbæjarsafn og Borgarskipulag Reykjavíkur.

Borgarskjalasafn. Aðf. 24292. Brunabótanúmer 1994 og 1995, dags. 21.12.1933.

Leiðsögn um íslenska byggingarlist (2000). Reykjavík: Arkitektafélag Íslands.

Orkuveita Reykjavíkur (ódags.). Elliðaárvirkjun. Sótt 30. ágúst 2012 af http://www.or.is/UmOR/Veiturogveitusvaedi/Virkjanir/Ellidaarvirkjun/.

Páll V. Bjarnason og Helga Maureen Gylfadóttir (2003). Umhverfi Rafstöðvar og Ártúns. Húsakönnun. Skýrsla nr. 100. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur.

Sumarliði R. Ísleifsson (2007). Saga Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1921-1998. Reykjavík: Orkuveita Reykjavíkur.