Reykjavík

Hótel Holt, Bergstaðastræti 37 - innréttingar

Byggingarár

1965

Hönnuður

Gunnar Magnússon, innanhúss- og húsgagnahönnuður

Friðun

Mennta- og menningarmálaráðherra ákvað 31. desember 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001, að friða fastar innréttingar á jarðhæð Hótel Holts í Reykjavík. Friðunin nær til fastra innréttinga í veitingasal í norðurenda auk hliðarherbergis, í gestamóttöku auk setustofu, í bókaherbergi/koníaksstofu og í ráðstefnu- og veitingasalnum Þingholti í suðurenda.


Innréttingar á jarðhæð Hótel Holts bera vitni um mikinn metnað eigendanna og vandaða hönnun. Gunnar Magnússon hönnuður innréttinganna er einn af frumkvöðlum í íslenskum húsgagna- og innanhússarkitektúr 20. aldar og eru innréttingarnar í Hótel Holti eitt af lykilverkum hans, sem hafa varðveist. Þær hafa mikla sérstöðu hvað varðar vandaðan frágang. Bakrýmum, s.s. bar og Kjarvalsstofu auk anddyri, hefur verið breytt á síðustu árum, en matsalur (1965, breytt skv. hönnun Gunnars Magnússonar árið 1992), Þingholtssalur (1973) og bókaherbergi (1984) eru upprunaleg rými þar sem vönduð hönnun Gunnars Magnússonar nýtur sín vel.

 

Gunnar Magnússon lauk trésmíðanámi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1955 og vann við smíðar í Reykjavík og í Kaupmannahöfn fram til þess er hann hóf nám í innanhúss- og húsgagnahönnun við Kunsthåndværkerskolen þaðan sem hann lauk námi árið 1963. Árið eftir fluttist Gunnar heim og hófst þá ferill hans sem innanhússarkitekt ásamt því að hann teiknaði fjölda húsgagna fyrir ýmsa framleiðendur, s.s. Kristján Siggeirsson, Valbjörk og Nývirkja. Gunnar hefur verið afkastamikill hönnuður og verkefni sem hann fékkst við voru ólík. Hann hannaði innréttingar fyrir mörg heimili, sérstaklega í Fossvoginum sem fór að byggjast upp á 7. áratugnum og var frumkvöðull í breyttu skipulagi afgreiðslna og vinnuumhverfi bankanna á 8. og 9. áratugnum. Hann var fenginn til að innrétta skip og velja áklæði og liti í flugvélar. Honum var einnig falið að hanna skákborð Fischers og Spasskís fyrir Einvígi aldarinnar árið 1972. Er það til marks um þá virðingu sem menn báru fyrir Gunnari, vönduðum vinnubrögðum hans, smíðakunnáttu og þekkingu á efniviði. Sú umfangsmikla hönnunarvinna sem hann vann fyrir Hótel Holt og sú staðreynd að hann var reglulega kallaður til við hverja breytingu á hótelinu styður þá skoðun þeirra sem til þekkja, að Gunnar er einn okkar hæfasti innanhúss- og húsgagnahönnuður.

 

Heimild:

Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands (2010). Umsögn um menningarsögulegt verðmæti innréttinga. Í gagnasafni Húsafriðunarnefndar.


Sjá loftmynd