Suðurland

Laxabakki við Sog

Grímsnes- og Grafningshreppi

Friðlýsing

Friðlýst af mennta- og menningarmálaráðherra 5. maí 2020, skv. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. ). Friðlýsingin tekur til ytra borðs sumarhússins Laxabakka, fastra innréttinga þess sem varðveist hafa, bátaskýli við bakka Sogs og lóðar hússins, 10.000 fm að stærð.

Byggingarefni

Torf, hraunhellur og timbur20150821_190457

Byggingarár

1943

Höfundur

Ósvaldur Knudsen


Laxabakka reisti Ósvaldur Knudsen (1899-1975) málarameistari og brautryðjandi í gerð leikinna kvikmynda og heimildamynda um íslenska náttúru. Húsið var byggt sem veiði- og frístundahús og þekkja margir það sem sumarhús Ósvalds. Húsið er í mynd íslensks torfbæjar með tveimur misháum burstum, torfi á þaki og hlöðnum hliðarveggjum úr hraunhellum. Við árbakkann skammt frá húsinu eru leifar bátaskýlis með torfþekju sem nú er fallin.

Varðveislugildi Laxabakka felst ekki  hvað síst í samspili byggingarlistar við náttúru og umhverfi. Húsið er sem samgróið landinu og fellur einstaklega vel að staðháttum við Sogið.20150821_193044

Laxabakki er sambland af torfbæ og timburhúsi sem stendur föstum fótum í innlendri byggingarhefð en sker sig jafnframt úr sem sjálfstætt verk með sterk höfundareinkenni. Baðstofa hússins er rétt smíðuð samkvæmt aldagamalli hefð. Færa má fyrir því rök að húsið sé seinasti hlekkurinn í óslitinni, ellefu hundruð ára þróunarsögu íslenska bæjarins. Finnski arkitektinn Alvar Aalto sótti Laxabakka heim árið 1968 og er til ljósmynd af honum við húsið ásamt Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt. Haft var eftir Aalto að Laxabakki væri að hans mati fegursta bygging á Íslandi.

Eigandi Laxabakka, Íslenski bærinn ehf., áformar að endurreisa húsið, varðveita það í upprunalegri mynd og nýta það fyrir menningartengda starfsemi.