Suðurland
  • Þingvallabærinn

Þingvallabærinn

Þingvöllum, Bláskógabyggð


Byggingarár: 1929-1930

Höfundur: Guðjón Samúelsson

Byggingarefni: Steinsteypa

Friðlýsing:

Friðlýstur af forsætisráðherra að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands 10. nóvember 2014 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs bæjarins.

Þingvallabærinn var byggður sem prestseturshús á árunum 1929-30 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Bærinn er kunnasta og merkasta dæmi um tilraunir Guðjóns til að endurskapa anda og fegurð íslenska torfbæjarins í nýju byggingarefni, steinsteypu, á 3. áratug 20. aldar. Upphaflega var húsið þrjár burstir með torfi á þekjum. Þök bæjarins reyndust vera of brött fyrir torfið og voru því fjótlega klædd með eir. Árið 1970 var ákveðið að stækka bæinn og var bætt við tveimur burstum til suðurs sem voru teknar í notkun 1974. Í nyrstu burstinni er aðstaða fyrir Þingallanefnd og þjóðgarðsvörð auk prests, en hinar fjórar burstirnar þjónuðu sem sumarbústaður og gestastofa forsætisráðherra. Bær og kirkja á Þingvöllum mynda saman mikilvæga, listræna heild. Ásýnd þessara húsa í stórbrotnu umhverfi Þingvalla er fyrir löngu orðin ómissandi þáttur í staðarmynd helgasta sögustaðar þjóðarinnar.