Suðurland
  • 0282

Torfastaðakirkja

Biskupstungnahreppur, Árnessýslu

Byggingarár: 1892-1893.

Hönnuður: Árni Þorsteinsson forsmiður, bóndi og fræðimaður frá Brennistöðum í Flókadal.[1]

Breytingar: Í upphafi voru norðurhlið og framstafn klædd láréttri borðaklæðningu en kirkjan að öðru leyti klædd bárujárni. Kirkjan var síðar öll klædd bárujárni í áföngum og lauk því verki árið 1916.[2]

Hönnuður: Ókunnur. Kór byggður við kirkjuna 1961. Hönnuður: Bjarni Pálsson byggingafulltrúi.[3]

Gluggum breytt og kirkjan klædd panelborðum að innan árið 1987 og kirkjan síðar klædd báruðum stálplötum að utan.[4]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Torfastaðakirkja er timburhús, 9,57 m að lengd og 6,38 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,0 m að lengd og 5,6 m á breidd. Á krossreistu þaki upp af framstafni er turn með ferstrent þak, íbjúgt um miðju. Undir honum er bjúgstallur. Hljómop með hlera og bogaglugga yfir er á framhlið turns en faldar um fölsk hljómop á turnhliðum hvorum megin. Laufskornar vindskeiðar eru undir þakbrúnum. Kirkjan er klædd báruðum stálplötum og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er T-laga póstur og tveir rammar með þremur rúðum hvor og þverrammi að ofan með einni rúðu. Á framstafni yfir kirkjudyrum er póstgluggi með þriggja rúðu römmum en þrír samlægir gluggar á hvorri hlið kórs, hver með fjórum rúðum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kórdyrabogi er á mörkum framkirkju og kórs og undir honum tvær stoðir. Kórgólf er hafið upp yfir kirkjugólf um eitt þrep. Hvorum megin í kór eru afþiljaðir klefar, geymsla að norðanverðu en skrúðhús að sunnanverðu. Setuloft á bitum er með þverum framgafli yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgafl norðan megin. Undir því eru fjórar stoðir og bogadreginn biti undir frambrún með einföldu bókrulluskrauti á endum. Tvær turnstoðir eru á loftinu og lausir bekkir. Veggir eru klæddir ómáluðum strikuðum panelborðum, kórveggir plötuklæddir en kórgafl og þilveggir klæddir slagþili. Yfir framkirkju er reitaskipt hvelfing stafna á milli en reitaskipt plötuklætt risþak yfir kór.[1] ÞÍ. Bps. C. V, 71 B. Bréf 1894. Byggingarreikningur Torfastaðakirkju 1892-1893 ásamt fylgiskjölum.

[2] ÞÍ. Bps. C. V, 71 B. Bréf 1894. Lýsing Torfastaðakirkju; Árnesprófastsdæmi AA/11. Torfastaðir 1907 og 1918

[3] ÞÍ. Biskupsskjalasafn. 1994-AA/10. Torfastaðir 1961; Hilmar Einarsson byggingafulltrúi. Viðtal 2002.

[4] Biskupsstofa. Biskupsvísitasía 2001. Torfastaðir. Greinargerð sóknarnefndar um framkvæmdir við Torfastaðakirkju gerð í tilefni af biskupsvísitasíu 2001; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 3. Torfastaðakirkja, 142-156. Reykjavík 2002.