Suðurland
  • 1789

Strandarkirkja

Selvogur, Ölfushreppi

Byggingarár: 1887-1888.[1]

Hönnuður: Sigurður Árnason snikkari frá Hlíð í Selvogi.[2]

Breytingar: Lengd til vesturs 1967-1968 og turni og innri gerð breytt verulega. Hönnuður: Jörundur Pálsson arkitekt hjá embætti Húsameistara ríkisins. Turn og innri gerð færð verulega til fyrra horfs 1996 og 1998. Hönnuður: Samúel Örn Erlingsson arkitekt.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Strandarkirkja er timburhús, 11,89 m að lengd og 7,10 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur uppmjór turn með ferstrendu þaki. Undir honum er stallur. Kirkjan er klædd listaþili, þak og turn eru eirklædd og hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar. Í þeim er T-laga póstur með tveimur þriggja rúðu römmum neðan þverpósts en þverramma með bogarimum að ofan. Á framstafni hvorum megin kirkjudyra er tveggja rúðu gluggi en póstgluggi með tveimur þriggja rúðu römmum yfir kirkjudyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir með þverglugga með bogarimum og bjór efst.

Inn af dyrum er forkirkja og í henni snúningsstigi sunnan megin til sönglofts yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju en skrúðhús norðan megin. Spjaldsettar vængjahurðir eru að framkirkju og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og hvorum megin altaris eru flatsúlur og bogi yfir því. Reitaskipt hvelfing studd strikasyllu er stafna á milli.[1] ÞÍ. Árnesprófastsdæmi AA/9. Úttekt Strandarkirkju 1888.

[2] ÞÍ. Árnesprófastsdæmi AA/9. Úttekt Strandarkirkju 1888; Jón Hnefill Aðalsteinsson. Strandarkirkja, 21.

[3] Samúel Örn Erlingsson. Kirkjur Íslands 4. Strandarkirkja, 154-170. Reykjavík 2003.