Suðurland
  • 0353

Marteinstungukirkja

Holta- og Landsveit

Byggingarár: 1896.

Hönnuður: Sigurður Guðbrandsson frá Hjálmholti.[1]

Breytingar: Um 1950 var kirkjan plötuklædd að innan og gluggum breytt og um 1960 voru smíðaðir lausir bekkir í kirkjuna.[2]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Mateinstungukirkja er timburhús, 9,62 m að lengd og 6,48 m á breidd. Á krossreistu þaki upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hann stendur á bjúgstalli. Kirkjan er klædd bárustáli og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar og einn minni yfir kirkjudyrum. Í þeim eru tveir póstar og þverpóstur undir boga og þverrimlar um níu rúður en fjórar rúður ofan þverpósts milli lóðrétts og skásettra rimla. Á framstafni turns er hljómop með hlera fyrir og hringgluggi efst. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og lausir bekkir hvorum megin hans. Yfir fremsta hluta framkirkju er setuloft og stigi til loftsins við framgafl að norðanverðu. Fjórar stoðir bera söngloftið og undir frambrún þess er bogadreginn biti með einföldu bókrulluskrauti til enda. Á loftinu eru þverbekkir og tvær stoðir undir turni. Veggir eru klæddir plötum, krossviði að neðan en texplötum að ofan. Flatsúlur með súluhöfuð eru á kórgafli hvorum megin altaris og bogi á milli þeirra. Strikasylla efst á veggjum er leidd fyrir kórgafl að flatsúlunum. Yfir kirkjunni stafna á milli er reitaskipt plötuklædd hvelfing.[1] ÞÍ. Bps. C, V. 63. Bréf 1897. Reikningur yfir byggingu Marteinstungukirkju 1896 með 26 fylgiskjölum.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Marteinstungukirkja.