Suðurland
  • 0244

Keldnakirkja

Keldur, Rangárvöllum

Byggingarár: 1875.

Hönnuðir: Halldór Björnsson frá Felli og Kjartan Ólafsson forsmiðir.[1]

Breytingar: Kirkjan var í öndverðu klædd listaþili og rennisúð en var klædd bárujárni í áföngum. Hún var skrautmáluð innan árið 1956 af Jóni og Grétu Björnsson.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Keldnakirkja er timburhús, 10,12 m að lengd og 5,67 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hann stendur á stalli. Á framhlið turns er hljómop með hlera og bjór yfir, en skjöldur er á framhlið turnstalls með ártalinu 1875. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með miðpósti og þriggja rúðu römmum og bjór yfir en einn heldur minni yfir kirkjudyrum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bjór yfir.

Inn af dyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Lágt kórþil er á mörkum framkirkju og kórs, með spjaldaþili að neðan en renndum pílárum að ofan. Í kórdyrum eru ferstrendir kórstafir með hnetti efst. Prédikunarstóll er í kórþili sunnan megin. Bekkir eru umhverfis í kór að altari. Setuloft á bitum og tveimur stoðum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi til loftsins við framgafl sunnan megin. Tvær turnstoðir eru á loftinu. Skástífa er ofarlega á vegg hvorum megin uppi undir frambrún setulofts. Veggir eru klæddir spjaldaþili en borðaklædd hvelfing er yfir innri hluta framkirkju og kór en skarsúðaðar sperrur yfir setulofti.

 [1] ÞÍ. Bps. C, V. 62. Bréf 1877. Reikningur yfir það sem undirritaður [Guðmundur Brynjólfsson] hefir lagt til byggingar Keldnakirkju árið 1875; Reikningur yfir tillögur og kostnað undirskrifaðs [Helgi Bjarnason] við byggingu Keldnakirkju árin 1875-76, með fylgiskjölum.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Keldnakirkja.