Suðurland
  • 0234

Prestbakkakirkja

Síða, Skaftárhreppi, V-Skaftafellssýslu

Byggingarár: 1859.[1]

Hönnuður: Hans Heinrich Schütte arkitekt og byggingarmeistari.

Athugasemd. Kirkjan var konungseign og greiddi Friðrik VII fyrir smíði hennar.

Breytingar: Í öndverðu var kirkjan klædd skarsúð og tjörguð en máluð ljósgrá að innan. Um 1910 var hún klædd bárujárni. Árið 1911 marmaramálaði Einar Jónsson málari frá Þórisholti kirkjuna að innan.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Prestbakkakirkja er timburhús, 15,18 m að lengd og 7,65 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþak. Hann stendur á háum og breiðum stalli. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fimm gluggar með tveimur T-laga póstum. Undir þverpósti eru þrír þriggja rúðu rammar en fjögurra rúðu þverrammi að ofan. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og á stafninum yfir þeim er smárúðóttur smáralaga gluggi úr pottjárni og á turnstallinum fangamark Friðriks VII konungs.

Forkirkja er fyrir þverum framgafli og í henni hvorum megin er stigi til sönglofts. Að framkirkju eru vængjahurðir og gangur inn af og sveigðir bekkir hvorum megin hans. Kórpallur, bogadreginn á framhlið, er hafinn yfir kirkjugólf um fjögur þrep. Fremst á miðjum pallinum er prédikunarstóll. Söngloft á bitum og fjórum stoðum er yfir fremri hluta framkirkju inn fyrir aðra gluggaröð. Skástífur eru ofarlega á veggjum við glugga uppi undir bitum sönglofts. Veggir framkirkju eru klæddir breiðum þiljum og kórgafl ofan reitaþilja við kórgólf. Á kórgaflinum eru þrír oddbogar. Veggir kirkjunnar eru annars klæddir reitaþiljum en undir þeim neðst er lárétt borðaklæðning. Yfir kirkju er borðaklædd hvelfing.[1] ÞÍ. Bps. C, V. 53. Bréf 1865. Skýrsla um ástand og fjárhag kirknanna í Vestur-Skaftafellsprófastsdæmi fyrir árið 1865.

[2] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I, 133, 236. Reykjavík 2000; Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Prestbakkakirkja á Síðu.