Suðurland
  • 0321

Grafarkirkja

Skaftárhreppur, V-Skaftafellssýslu

Byggingarár: 1898.[1]

Hönnuður: Samúel Jónsson forsmiður.

Breytingar: Turni, sem upphaflega var áttstrendur, var breytt í núverandi mynd árið 1931.[2]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Grafarkirkja er timburhús, 8,90 m að lengd og 5,71 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hljómop með hlera er á framstafni turns. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er T-laga póstur og tveir þriggja rúðu rammar undir þverpósti en þverrammi efst með bogadregnum rimum að innan. Minni gluggi er hvor sínum megin kirkjudyra með þriggja rúðu ramma neðan þverpósts og einum ramma að ofan. Gluggi með þremur þriggja rúðu römmum er uppi á stafninum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Forkirkja er skilin frá framkirkju með þverþili. Í henni er stigi til sönglofts yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju. Á þverþili eru spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn af þeim er gangur að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Þverbekkir eru hvorum megin gangs en veggbekkir í kór. Undir sönglofti eru fjórar stoðir með súluhöfuð og turnstoðir á loftinu. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Efst á þeim er strikasylla sem leidd er fyrir kórgafl að flatsúlum með súluhöfuð hvorum megin altaris, en milli þeirra er bogi yfir altarinu. Reitaskipt hvelfing skreytt stjörnum er yfir kór og innri hluta framkirkju en yfir sönglofti er panelklætt súðar- og skammbitaloft.[1] ÞÍ. Bps. C, V. 54. Bréf 1903. Skýrsla um kirkjur í Vestur-Skaftafellsprófastsdæmi í fardögum árið 1902.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Grafarkirkja í Skaftártungu.