Suðurland
  • Ráðhús Vestmannaeyja

Ráðhús Vestmannaeyja

Kirkjuvegur 50

Byggingarár: 1927

Höfundur: Guðjón Samúelsson

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 16. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin nær til ytra byrðis hússins.

Byggingarefni

Steinsteypt hús.


Sjúkrahús Vestmannaeyja, nú ráðhús Vestmannaeyja, var byggt árið 1927 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Það þjónaði upphaflegu hlutverki sem sjúkrahús til ársins 1973, þegar nýtt sjúkrahús var tekið í notkun. Endurbætur voru gerðar á húsinu á árunum 1974-1977 og síðan hefur það þjónað sem ráðhús bæjarins.

Sjúkrahús Vestmannaeyja er í hópi merkra sjúkrahúsbygginga sem Guðjón Samúelsson teiknaði á fyrstu starfsárum sínum á vegum ríkisins.  Elst þeirra er gamla sjúkrahúsið á Eyrartúni á Ísafirði, reist 1924-25, en auk þess má nefna sjúkrahús Suðurlands á Eyrarbakka (nú fangelsið Litla-Hraun) og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. 

Teikningin af sjúkrahúsi Vestmannaeyja er dagsett í maí 1925. Húsið er úr steinsteypu, kjallari, hæð og hátt ris með hálfvalmaþaki.