Suðurland
  • Skálholtskirkja

Skálholtskirkja

Byggingarár

1956 til 1963

Hönnuður

Hörður Bjarnason arkitekt, húsameistari ríkisins

Byggingarefni

Steinsteypa

Friðun

Skálholtskirkja var friðuð af mennta- og menningarmálaráðherra  21. desember 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001, ásamt Skálholtsskóla og nánasta umhverfis. Friðunin nær til innra og ytra byrðis Skálholtskirkju, ytra byrðis Skálholtsskóla auk nánasta umhverfis að undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar.

 

Byggingarnar tvær, Skálholtskirkja, sem Hörður Bjarnason húsameistari ríkisins teiknaði árið 1956, og Skálholtsskóli, sem Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitektar teiknuðu árið 1970, eru tvær af vönduðustu byggingum 20. aldar á Íslandi og hafa því mikið gildi í byggingarlistasögu þjóðarinnar. Í útfærslu sinni á Skálholtskirkju hafði Hörður hliðsjón af Brynjólfskirkju sem stóð í Skálholti frá 1650 til 1807, krosslöguð, með þverskipi og hliðarskipum. Hún er einstaklega glæsileg í sínum einfaldleika og látleysi. Við hönnun Skálholtsskóla höfðu arkitekarnir fyrri tíða þorpsmynd í Skálholti í huga. Byggingunni er skipt upp í minni hús með tengigangi og til að árétta mikilvægi samræmis í byggingum í Skálholti var skólinn hafður í sömu litum og kirkjan.

Skálholtskirkja var vígð í júlí 1963 og er sú tólfta á staðnum. Að innan er kirkjan einnig látlaus og einföld og því njóta steindir gluggar Gerðar Helgadóttur sín afar vel. Í kirkjunni er mikið af listaverkum en ein helsta prýði hennar verður þó að teljast mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur sem er í kórnum.

 

Heimild:

Leiðsögn um íslenska byggingarlist (2000). Reykjavík: Arkitektafélag Íslands.


Sjá loftmynd