Vestfirðir
  • 0131

Hermannshús - Félagshús, Flatey

Breiðafirði

Byggingarár: 1843.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Húsið friðað í A-flokki af menntamálaráðherra 2. apríl 1975 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hermannshús er einlyft timburhús með krossreist þak, 8,9 m að lengd og 5,71 m á breidd, og með anddyri með skúrþak við suðurhlið, 3,46 m að lengd og 2,40 m á breidd og skúrviðbyggingu með skúrþak við norðurhlið, 4,53 m að lengd og 2,14 á breidd. Við austurgafl Félagshúss stendur Gunnlaugshús. Félagshús stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli, veggir eru klæddir listaþili og þök bárujárnsklædd. Á suðurhlið þaks er þakkvistur með skúrþak og fjögurra rúðu glugga með miðpósti en tveir kvistir eru á norðurhlið með fjögurra rúðu glugga og reykháfur er á mæni. Suðurkvistur er klæddur listaþili en norðurkvistar sléttu járni. Tvípósta gluggi með níu rúðum er á suðurhlið austan inngönguskúrs en sex rúðu gluggi með miðpóst vestan við skúrinn. Fjórir gluggar sömu gerðar eru á vesturgafli þar af einn á bakdyraskúr og tveir á norðurhlið hússins. Á gaflhyrnu eru tveir einnar rúðu gluggar og hálfhringgluggi efst uppi undir mæni. Útidyr eru á vesturhlið anddyris og dyr eru á norðurhlið skúrviðbyggingar.

Í anddyri er forstofa innaf útidyrum og baðherbergi í austurhluta. Úr forstofu er gengið inn á gang og í honum er stigi upp á loft. Stofa er í suðvesturhluta hússins, eldhús í suðausturhluta, stofa í norðausturhluta og í norðvesturhluta og skúrviðbyggingu er geymsla en þar eru innréttingar frá því að verslað var í húsinu. Upp af stiga er framloft og herbergi við hvorum enda. Veggir í anddyri, gangi inn af því og í skúrviðbyggingu eru klæddir strikuðum panelborðum en veggir í vesturhelmingi hússins eru klæddir spjaldaþili en plötuklæddir í austurhluta. Á jarðhæð eru loft plötuklædd milli bita loft í anddyri og skúrviðbyggingu eru panelklædd. Í risi eru veggir panelklæddir og súð í herbergjum báðum panelklædd neðan á bita en á milli bita á framlofti.


[1] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Drög að húsakönnun í Flatey 1977; Guðmundur L. Hafsteinsson. Bæjar- og húsakönnun í Flatey 2006. Handrit 24. júní 2007.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Félagshúss og Gunnlaugshúss í Flatey.