Vestfirðir
  • 0260

Gufudalskirkja

Reykhólahreppur

Byggingarár: 1908.[1]

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Gufudalskirkja er timburhús, 7,60 m að lengd og 5,74 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 1,54 m að lengd og 2,28 m á breidd. Þak kirkju og turns er krossreist. Á stöpli er klukknaport með tveimur bogadregnum opum á hverri hlið og lauklaga hvolfþak yfir. Undir klukknaporti er lágur stallur. Kirkjan er bárujárnsklædd, turnstallur og veggir klukknaports timburklæddir, laukþakið klætt sléttu járni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír smárúðóttir krosspóstagluggar bogadregnir að ofan og þakgluggi hvorum megin á þaki yfir setulofti. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri bogadreginni hurð. Yfir þeim er hringgluggi í burstlaga umbúnaði.

Að framkirkju er spjaldsett hurð og gangur inn af og bekkir hvorum megin hans. Setuloft á fjórum stoðum er yfir fremri hluta framkirkju og sveigður stigi við framgafl sunnan megin dyra. Kórbogaþil er klætt á kórgafl yfir altari og undir því eru tvær stoðir og tvær veggsúlur felldar inn í grátur. Hvorum megin kórbogans er flatt loft út að veggjum og undir því sunnan megin er stigi upp í prédikunarstól. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Yfir kirkjunni er súð og flatt loft klædd strikuðum panelborðum neðan á sperrur og skammbita.


[1] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 269. Reykjavík 1998.

[2] ÞÍ. Teikningasafn Embættis Húsameistara. Rögnvaldur Ólafsson. Bréf til Landskjalasafns dagsett 18. nóvember 1912. Þar telur Rögnvaldur upp kirkjur þær sem hann hafði teiknað fram að þeim tíma.