Vestfirðir
  • 0372

Staðarkirkja, Reykhólahreppi

Reykhólar, Reykjanesi, A-Barðastrandasýslu

Byggingarár: 1864.

Hönnuður: Daníel Hjaltason forsmiður og gullsmiður.[1]

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1964.

Sett á fornleifaskrá 19. maí 1964 samkvæmt 2. gr. laga um viðhald fornra mannvirkja og um byggðasöfn nr. 8/1947 en ekki þinglýst og friðunin því ógild sbr. 6. gr. laga um verndun fornmenja nr. 40/1907.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Staðarkirkja á Reykjanesi er timburhús, 8,18 m að lengd og 5,02 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Kirkjan er klædd listaþili og listasúð og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í hverjum þeirra er rammi með níu rúðum milli lóðréttra og láréttra rima og sjö að ofan milli skásettra rima. Yfir kirkjudyrum er lítill gluggi með sex rúðum en hleri fyrir hljómopi á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Yfir þeim er stórstrikuð brík og undir henni hvorum megin dyra hálfsúlur með súluhöfðum í korintískri stíllíkingu.

Gangur er inn af kirkjudyrum og hvorum megin hans eru kirkjubekkir og bekkir umhverfis í kór að altari. Dyr eru fyrir innri bekkjaröðum og innsti bekkur norðan megin er tvísættur. Gegnt honum sunnan megin er prédikunarstóll framan kórþils í baki kórbekkja. Milli kórstafa er bogadregin drótt. Yfir tveimur fremstu stafgólfum framkirkju er afþiljað loft á bitum og stigi við framgafl sunnan megin. Kirkjan er klædd spjaldaþili og yfir innri hluta framkirkju og kór er risloft klætt skarsúð ofan á sperrur.


[1] Hörður Ágústsson. Af minnisblöðum málara. Birtingur 1.-2. hefti 1962, 14-19; 3.-4. hefti 1963, 48.

[2] Ágúst Ó. Georgsson. Forleifaskrá 1990, 33.