Vestfirðir
  • 1460

Faktorshúsið Hæstakaupstað, Ísafirði

Aðalstræti 42

Byggingarár: 1788.

Breytingar: Stokkbyggður norðurhluti hússins er elstur en byggt var við suðurgafl úr bindingsverki um 1830.[1]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 16. janúar 1975 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Faktorshúsið er einlyft stokkbyggt timburhús með risþaki, 14,51 m að lengd og 7,86 m á breidd. Við norðanverða bakhlið er einnar hæðar inngönguskúr með skúrþaki, 3,50 m að lengd og 2,13 m á breidd. Tveir kvistir með fjögurra rúðu glugga og skúrþaki eru hvorum megin á þaki hússins og reykháfur að austanverðu. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli og kjallari er undir skúr. Veggir eru klæddir listaþili og þak rennisúð. Á framhlið hússins eru fjórir gluggar með miðsettum krosspósti og 16 rúðum, þrír á suðurgafli og þrír á austurhlið. Tveir 12 rúðu krosspóstagluggar eru á gaflhlaði sunnan megin, lítill fjögurra rúðu gluggi efst og fánastöng upp af. Á norðurgafli er einn 12 rúðu póstagluggi, tveir 12 rúðu krosspóstagluggar á gaflhlaði og dyr með okahurð og gálga yfir. Efst er lítill fjögurra rúðu gluggi. Útidyr eru á miðri framhlið og fyrir henni tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi yfir með tígulrúðum. Til hliðar við dyrnar eru rifflaðar flatsúlur og bjór yfir með lágmynd á gaflfleti. Bakdyr eru á suðurhlið skúrs, tveir fjögurra rúðu gluggar á austurhlið og einn norðarlega á austurhlið hússins.

Forstofa er inn af útidyrum og stigi upp á loft. Tvær stofur eru í suðurenda hússins og aðrar tvær í norðvesturhluta, eldhús og kames austan megin fyrir miðju en salerni eru í norðausturhluta. Í risi er gangur upp af stiga og salerni undir súð, herbergi í suðurenda og stór stofa að norðanverðu. Veggir í forstofu eru klæddir standþiljum, eldhús er klætt listuðum standþiljum með miðsyllu, stofur og kames eru klædd brjóstþili með veggfóðri að ofan en ýmist með spjöldum eða standþiljum að neðan og á salernum eru sýnilegir veggstokkar. Spjaldareitir eru í loftum nema í forstofu, stofu í norðvesturenda og salernum sem eru borðaklædd. Veggir í risi eru klæddir standþili, loft á gangi er borðaklætt en í herbergi og stofu er skarsúð á sperrum.


[1] Hjörleifur Stefánsson. Íbúðarhús verslunarstjórans í Hæstakaupstað á Ísafirði. Greinargerð og frumtillögur að endurbótum, 1993; Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir. Húsakönnun á Ísafirði 1992-1993, 48. Handrit 1993.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Aðalstrætis 42 á Ísafirði.