Vestfirðir
  • 0618

Faktorshúsið Neðstakaupstað, Ísafirði

Byggingarár: 1765.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 16. janúar 1975 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Faktorshúsið er timburhús af bolhúsagerð með risþaki, 9,62 m að lengd og 7,75 m á breidd. Kvistur er á miðju þaki að norðanverðu og reykháfur við mæni sunnan megin og þakgluggi upp af skúrþaki. Við suðurhlið er bakdyraskúr með bröttu skúrþaki, 2,14 m að lengd og 1,97 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir listaþili og hæðarskilalisti er á göflum. Þak er klædd rennisúð. Á framhlið hússins eru tveir 12 rúðu póstagluggar, einn á austurgafli, tveir sex rúðu gluggar og vængjahlerar fyrir vörudyrum með gálga yfir. Tveir 12 rúðu póstagluggar eru á suðurhlið og einn á vesturgafli auk þriggja tólf rúðu glugga og lítils glugga á gaflhlaðinu. Minni 12 rúðu póstagluggi er á kvisti. Útidyr eru á miðri framhlið og fyrir þeim tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi yfir. Bakdyr eru á vesturhlið skúrs og tveggja rúðu gluggi á austurhlið. Fánastöng er efst á vesturgafli.

Forstofa er inn af útidyrum og stofa hvorum megin hennar að norðanverðu, eldhús er við bakhlið austan megin en kames vestan megin. Inn af bakdyraskúr er stigi upp í ris. Gangur er upp af stiganum, baðherbergi undir kvisti, tvö herbergi eru í vesturenda og eitt í austurenda. Veggir í forstofu og eldhúsi eru klæddir strikuðum panelborðum, stofurnar og kames eru klædd brjóstþili með reitaþiljum að neðan en veggfóðri að ofan og bakdyraskúr klæddur standþili. Í stofum og kamesi er reitaloft milli klæddra bita, borð á bitum í eldhúsi en panelklætt loft í forstofu og bakdyraskúr. Veggir og loft í gangi og baðherbergi eru klædd strikuðum panelborðum, súðarherbergi suðvestan megin er klætt brjóstþili með reitaþiljum og veggfóðri og hin herbergin tvö eru veggfóðruð.


[1] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Faktorshúsið í Neðstakaupstað; Af norskum rótum. Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir. Ísafjörður og Vestfirðir – miðstöð hvalveiða, 229. Mál og menning. Reykjavík 2003.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Faktorshúss í Neðstakaupstað.