Vestfirðir
  • 2301

Nauteyrarkirkja

Langadalsströnd

Byggingarár: 1885–1886.

Hönnuður: Guðni Árnason forsmiður.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Nauteyrarkirkja er timburhús, 10,18 m að lengd og 6,38 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með píramítaþaki. Kirkjan er klædd bárujárni, turn sléttu járni og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með átta rúðum en uppi yfir kirkjudyrum er minni gluggi með sex rúðum og annar á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og yfir þeim þvergluggi með skásettum rimum og bjór efst.

Inn af dyrum er gangur að kór sem skilinn er frá framkirkju með kórþili í renndum pílárum í baki innstu bekkja. Þverbekkir með rimlum í bökum eru hvorum megin gangs en veggbekkir í kór. Setuloft er yfir fremsta hluta framkirkju og setsvalir inn með hliðum inn fyrir miðglugga en stigi til loftsins við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir ómáluðum strikuðum panelborðum. Strikasylla með tannstöfum undir er efst á veggjum neðan við hvelfingu og er leidd fyrir kórgafl og frambrúnir setsvala og setulofts. Yfir setulofti og setsvölum er panelklædd hvelfing en önnur ívið lægri og mun breiðari er yfir innri hluta framkirkju og kór.


[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 145. Bréf 1888.Reikningur yfir byggingu Nauteyrarkirkju árið 1885-86.