Vestfirðir
  • 1780

Vatnsfjarðarkirkja

Vatnsfjörður, Ísafjarðardjúpi

Byggingarár: 1911–1912.

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[1]

Breytingar: Kirkjan var í upphafi múrhúðuð að innan en var síðar klædd strikuðum panelborðum.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Vatnsfjarðarkirkja er steinsteypuhús, 9,51 m að lengd og 5,69 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni. Upp af framstafni er ferstrendur burstsettur turn með ferstrendri spíru. Undir honum er lágur stallur. Bogadregin hljómop með hlera og bogaglugga yfir eru á turnhliðum. Veggir eru múrhúðaðir og efst á stöfnum undir þakbrúnum er upphleypt múrhúðuð vindskeið, bogadregin neðst og þverskorin að neðan. Strikuð múrbrún er undir þakskeggi. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir gluggar og á framstafni yfir dyrum er smárúðóttur gluggi en hvorum megin hans minni blindgluggar. Fyrir kirkjudyrum er spjaldahurð með þremur lóðréttum rúðum, bogadregnum að ofan. Yfir dyrum er lágbogi.

Forkirkja er þiljuð af norðurhluta framkirkju og í henni er stigi upp í turn. Að framkirkju er spjaldsett hurð og gangur inn af þeim og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og yfir kirkjunni stafna á milli er panelklædd hvelfing.


[1] ÞÍ. Teikningasafn Embættis Húsameistara ríkisins. Rögnvaldur Ólafsson. Bréf til Landskjalasafns dagsett 18. nóvember 1912. Þar telur Rögnvaldur upp kirkjur þær sem hann hafði teiknað fram að þeim tíma.

[2] Magnús Skúlason. Viðtal 2000.