Vestfirðir
  • 0378

Súðavíkurkirkja

Súðavík

Byggingarár: 1899 og 1962.

Athugasemd: Flutt inn tilsniðin frá Noregi og reist á Hesteyri 1899.[1]

Hönnuður: Ókunnur, en yfirsmiður var Olaf Nielsen smiður.

Breytingar: Þegar kirkjan var smíðuð á Hesteyri 1899 var hún án kórútbyggingar og ferstrendur turn með píramítaþaki var upp af framstafni. Kirkjan var panelklædd að innan og í henni var hvelfing.[2]

Hesteyrarkirkja var tekin niður, flutt til Súðavíkur og Súðavíkurkirkja smíðuð upp úr henni 1962. Var kirkjunni þá breytt verulega að innan og forkirkjuturn smíðaður í stað þakturns.

Hönnuður: Embætti Húsameistara ríkisins.[3]

Kór smíðaður við kirkjuna 1988.

Hönnuður: Elísabet Gunnarsdóttir arkitekt.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Súðavíkurkirkja er timburhús, 9,21 m að lengd og 6,70 m á breidd, með kór, 3,79 m að lengd og 5,31 m á breidd. Tvískiptur turn er við framstafn, 2,02 m að lengd og 3,63 á breidd. Á stöpli er risþak og á því mjór ferstrendur turn með krossreistu þaki. Hleri er fyrir hljómopi á hvorri turnhlið. Yfir kirkju og kór eru krossreist þök og gaflþak upp af kórbaki. Kirkjan er klædd láréttum plægðum borðum en þök bárujárni og stendur á steinsteyptum sökkli. Kjallari er undir kór. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar með átta rúðum en á hvorri hlið kórs er hár og mjór gluggi. Hvorum megin á stöpli er gluggi og annar á framhlið uppi yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð.

Í forkirkju er stig til setulofts yfir fremsta hluta framkirkju. Að framkirkju eru vængjahurðir og gangur inn af þeim og lausir bekkir hvorum megin hans. Veggir eru klæddir ómáluðum strikuðum panelborðum. Yfir framkirkju er panelklætt risloft með skammbitum og sperruborðum en hvelfing yfir kór.


[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 145. Bréf 1899. Lýsing Hesteyrarkirkju.

[2] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 145. Bréf 1899. Lýsing Hesteyrarkirkju.

[3] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Súðavíkurkirkja.

[4] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Súðavíkurkirkja.