Vestfirðir
  • 1215

Saurbæjarkirkja

Rauðisandur

Byggingarár: 1855–1859 á Reykhólum.

Hönnuður: Páll Guðmundsson forsmiður að talið er.[1]

Breytingar: Kirkjan tekin niður árið 1975 og endurgerð í Saurbæ 1976–1982.[2]

Friðuð í A-flokki af menntamálaráðherra 20. desember 1982 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Saurbæjarkirkja er timburhús, 11,06 m að lengd og 5,49 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Á turnhliðum eru bogadregin hljómop. Kirkjan er klædd listaþili, þök bárujárni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir gluggar með strikaðri brík yfir og skoruðum földum til hliða. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, hálfsúlur hvorum megin þeirra og brík yfir.

Inn af dyrum er forkirkja þiljuð frá framkirkju með þverþili. Spjaldsettar vængjahurðir eru að framkirkju og gangur inn af þeim að kór sem skilinn er frá framkirkju með lágu kórþili í baki kórbekkja. Þverbekkir eru hvorum megin gangs og dyr fyrir innri bekkjum og veggbekkir umhverfis í kór. Innsti bekkur norðan megin í framkirkju er tvísættur en prédikunarstóll er hinum megin gangs, framan kórþils. Yfir framkirkju er afþiljað loft á bitum og stigi sunnan megin gangs við þverþilið. Veggir eru klæddir spjaldaþili en þverþilið plötuklætt. Skástoðir eru af gólfi út í veggi. Yfir kór er hvelfing klædd stjörnuprýddu veggfóðri.


[1] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990, 70. Reykjavík 2000.

[2] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 231. Reykjavík 1998.

[3] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Saurbæjarkirkju.