Vestfirðir
  • 1030

Hagakirkja

Vesturbyggð

Byggingarár: 1892–1893.

Hönnuður: Ókunnur en yfirsmiður kirkjunnar var Magnús vert Magnússon forsmiður í Flatey.

Athugasemd: Efni til smíði kirkjunnar kom tilsniðið til landsins frá Kaupmannahöfn.[1] Kirkjan fauk 1897 og var tekin niður til geymslu en loks endurreist 1899.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hagakirkja er timburhús, 11,46 m að lengd og 6,72 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er lágur ferstrendur turn með pírmítaþaki. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum múrhúðuðum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir krosspóstagluggar með römmum og sex rúðum, á framstafni er gluggi með miðpósti og þriggja rúðu römmum og hljómop með hlera á framhlið turns. Bjór er yfir gluggum, hljómopi og dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi og bjór yfir.

Forkirkja er þiljuð af framkirkju. Á milliþili eru spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn af þeim er gangur að háum kórpalli, bogadregnum á framhlið. Sveigir bekkir eru hvorum megin gangs. Setuloft á fjórum stoðum er með þverum framgafli yfir fremsta hluta framkirkju. Afþiljaður stigi er norðan megin við kirkjudyr en afþiljaður skápur hinum megin. Tvær turnstoðir eru á loftinu. Gaflveggir kirkju eru klæddir lóðréttum strikuðum þiljum en veggir láréttum strikuðum þiljum upp undir mjóa strikasyllu sem er í sömu hæð og þverpóstur glugga. Á syllunni situr hvelfing sem nær stafna á milli. Neðri hluti hennar er klæddur á sama hátt og veggir en efri hluti hennar er klæddur strikuðum panelborðum.


[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 131. Bréf 1896. Reikningur yfir kostnað við byggingu etc. Hagakirkju 1892-93.

[2] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 131. Bréf 1902. Reikningur yfir ýmsan kostnað við endurreisn Hagakirkju á barðaströnd árið 1899.