Vestfirðir
  • 2147

Stóra-Laugardalskirkja

Táknafjarðarhreppur

Byggingarár: 1906–1907.

Hönnuður: Ókunnur.

Athugasemd: Kirkjan er teiknuð og efni til smíði hennar tilsniðið í Noregi.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Stóra-Laugardalskirkja er stokkbyggt timburhús, 10,30 m að lengd og 7,74 m á breidd, með forkirkju undir minna formi, 2,30 m að lengd og 3,36 m á breidd. Lágreist risþak er á kirkjunni og upp af framstafni er lágur ferstrendur turn með tvískiptu þaki; risþak og ferstrenda spíru upp af því. Hljómop með hlera er á öllum turnhliðum og á stöfnum er yfir þeim burst. Þök eru klædd bárujárni, turnþak sléttu járni, veggir láréttum plægðum borðum og lóðréttum hornborðum nema kórgafl sem er bárujárnsklæddur og kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír burstsettir smárúðóttir gluggar. Fyrir kirkjudyrum er burstsett hurð. 

Að framkirkju er spjaldsett hurð og gangur frá henni að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um tvö þrep. Bekkir eru hvorum megin gangs og með veggjum í kór. Á mörkum framkirkju og kórs er lágt kórþil með ferstrendum rimum og lágum kórstöfum í kórdyrum. Yfir kórþili er kórdyrabogi uppi undir hvelfingu og undir honum stoðir og þverbitar út í veggi. Framan kórþils sunnan megin er prédikunarstóll og himinn yfir. Svalir eru á framgafli yfir kirkjudyrum og stigi sunnan megin. Afþiljaður stigi er á svölunum upp í turn. Stokkar veggja eru sýnilegir að innan. Yfir kirkjunni stafna á milli er borðaklædd stjörnusett hvelfing.[1] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Lilja Magnúsdóttir. Stóra-Laugardalskirkja. Erindi flutt í tilefni af 90 ára afmæli kirkjunnar; Af norskum rótum. Hjörleifur Stefánsson. Um norsk áhrif á íslenska byggingarsögu, 34; Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir. Ísafjörður og Vestfirðir – miðstöð hvalveiða, 237. Mál og menning. Reykjavík 2003.