Vestfirðir
  • 2105

Gunnlaugshús - Félagshús, Flatey

Byggingarár: 1851.

Hönnuður: Jóhann Moul forsmiður og beykir.[1]

Húsið friðað í A-flokki af menntamálaráðherra 2. apríl 1975 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Gunnlaugshús er einlyft timburhús með bratt gaflsneitt þak, 5,60 m að lengd og 7,69 m á breidd, og með anddyri með skúrþak við norðurhlið, 2,90 m að lengd og 2,65 m á breidd. Húsið er byggt við austurgafl Félagshúss. Gunnlaugshús stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli, veggir eru klæddir strikuðu listaþili og hæðarskilslistar eru yfir gaflgluggum. Þök eru klædd bárujárni og þakkvistur með bröttu skúrþaki er á hvorri hlið og í þeim sex rúðu gluggi með miðpósti. Reykháfur er á mæni vestarlega. Á húsinu eru 11 sex rúðu gluggar með miðpósti; tveir á vesturgafli, þar af einn á anddyri, sex á austurgafli og tveir á suðurhlið. Að auki eru á húsinu tveir þriggja rúðu gluggar; annar á vesturgafli en hinn á norðurhlið anddyris, og þrír einnar rúðu gluggar; einn á austurhlið anddyris og tveir á gaflhlaði austan megin. Útidyr eru á austurhlið anddyris og fyrir þeim okahurð.

Inn af útidyrum eru forstofa og baðherbergi. Gangur með stiga er inn af forstofu og eldhús í norðausturhluta og stofa er sunnan megin í húsinu. Upp af stiga er framloft og stigi upp í ris. Kames er að sunnanverðu inn af framlofti og herbergi fyrir miðjum austurgafli og súðarkompur hvorum megin þess. Anddyri og suðurhluti hússins eru klædd standþiljum og súð í anddyri er klædd borðum og í eldhúsi er loft borðaklætt milli klæddra bita. Stofan er klædd brjóstþili með sneiddum spjöldum að neðan og standþiljum að ofan og loft reitaklætt með spjöldum sneiddum í lágan píramíta milli klæddra strikaðra bita. Á efri hæð er gaflherbergi klætt brjóstþili með reitum að neðan og standþiljum að ofan og yfir gólfborð á klæddum bitum. Aðrir veggir eru klæddir standþili, súð klædd reisifjöl og loft á framlofti og kames klædd sléttfelldum borðum milli bita.


[1] Þorsteinn Jónsson. Eylenda I, 185. Reykjavík 1966; Guðmundur L. Hafsteinsson. Bæjar- og húsakönnun í Flatey 2006. Handrit 24. júní 2007.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Félagshúss og Gunnlaugshúss í Flatey.