Vesturland
  • Hallgrímskirkja Saurbæ

Hallgrímskirkja í Saurbæ

Hvalfjarðarströnd


Byggingarár: 1954-1957

Höfundar: Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson arkitektar

Byggingarefni: Steinsteypa

Friðlýsing:

Friðlýst af forsætisráðherra að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands 10. nóvember 2014 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar í tilefni þess að árið 2014 voru liðin 400 ár frá fæðingu sr. Hallgríms Péturssonar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs kirkjunnar og kirkjuskips.

Hallgrímskirkja í Saurbæ var hönnuð og byggð á árunum 1954-57. Hún er ein markverðasta kirkjubygging eftirstríðsáranna, vel varðveitt og heilsteypt verk í listrænu tilliti. Þá er byggingin mikilvægt dæmi um höfundarverk arkitektanna Sigurðar Guðmundssonar og Eiríks Einarssonar þar sem þeir unnu með hefðbundið kirkjuform á nýstárlegan hátt með efnum og útfærsluatriðum samtíðar sinnar. Kirkjan var reist sem minningarkirkja um sálmaskáldið séra Hallgrím Pétursson (1614-1674) sem var prestur í Saurbæ á árunum 1651-1669. Efnt var til samkeppni um kirkjuteikningu í Saurbæ árið 1935 en ekki varð sátt um niðurstöðu hennar. Var Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins falið að teikna minningarkirkju sem átti að verða mun stærri en núverandi kirkja. Undirstöður að kirkju Guðjóns voru steyptar en ekki varð úr frekari framkvæmdum á grundvelli teikninga hans. Á 6. áratugnum var ákveðið að fela Sigurði og Eiríki að teikna minni kirkju sem að stæði að hluta til á sökklinum sem kominn var. Kirkjan er byggð úr steinsteypu en að innan eru veggir hlaðnir úr dönskum tígulsteini. Loft í kór er klætt með harðvið en þök að utan með eir. Í öllum gluggum kirkjuskips eru glermyndir eftir Gerði Helgadóttur. Á altarisvegg er freska eftir finnska listamanninn Lennart Segerstrale.