Vesturland
  • 1583

Reynivallakirkja

Kjós

Byggingarár: 1859.

Hönnuður: Einar Jónsson forsmiður frá Brúarhrauni.[1]

Breytingar: Kirkjan var járnklædd 1894, forkirkja smíðuð 1951, kirkjan lengd 1959 og innri gerð breytt. Hönnuðir: Ókunnir.

Innri gerð færð til eldra horfs 1997-1999 og þaki á forkirkju breytt.

Hönnuðir: Guðlaug Erna Jónsdóttir og Magnús Skúlason arkitektar.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Reynivallakirkja er timburhús, 11,72 m að lengd og 6,32 m á breidd, með forkirkju, 1,78 m að lengd og 2,85 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþak en lágreist risþak er á forkirkju. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn á framstafni yfir forkirkju en bogadregið hljómop með hlera á framhlið turns. Yfir gluggum er lágur bjór. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór. Lágt kórþil er á mörkum framkirkju og kórs, prédikunarstóll innan þess sunnan megin en orgel norðan megin. Afþiljaðir klefar eru hvorum megin altaris og kórdyrabogi á milli þeirra. Setuloft á bitum er yfir fremri hluta kirkju og stigi í norðvesturhorni. Veggir forkirkju og setulofts eru klæddir strikuðum panelborðum en veggir framkirkju og kórs spjaldaþili. Yfir setulofti er panelklædd súð og skammbitaloft en súð yfir næsta stafgólfi innan við er klædd breiðum listuðum borðum. Reitaskipt lágreist risloft er yfir innri hluta framkirkju og kór.[1] ÞÍ. Bps. C. V, 81. Bréf 1862. Reikningur yfir byggingarkostnað Reynivallakirkju 1859-1861, ásamt fylgiskjölum.

[2] Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 12. Reynivallakirkja, 238-249. Reykjavík 2008.