Vesturland
  • 0339

Innri-Hólmskirkja

Innri-Akraneshreppur

Byggingarár: 1891–1892.

Hönnuður: Jón Jónsson Mýrdal forsmiður og rithöfundur.[1]

Breytingar: Í upphafi var kirkjan timburklædd á veggjum en bárujárnsklædd á þökum. Á kirkjunni voru sexrúðu póstagluggar og yfir þeim bjór.[2]

Árið 1896 var turn klæddur sléttu járni en kórgafl og suðurhlið klædd bárujárni en vesturstafn og norðurhlið árið 1906.[3] Kirkjan var ómáluð að innan fram til um 1924 er hún var öll máluð innan.[4] Árið 1952 var steypt utan á veggi kirkjunnar, bogadregnir gluggar smíðaðir í hana og steinsteypt forkirkja byggð.[5]

Hönnuðir: Ókunnir.

Árið 1963 voru veggir klæddir sandblásnum panelborðum, gólf endurnýjað og nýir bekkir smíðaðir í kirkjuna.

Hönnuður: Séra Jón M. Guðjónsson.

Sama ár var strigi strengdur í reiti hvelfingar og á kórgafl undir hvelfingu og skrautmálað af Jóni og Grétu Björnsson.[6]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Innra-Hólmskirkja er timburhús hjúpað steinsteypu, 9,21 m að lengd og 6,04 m á breidd, með steinsteypta forkirkju, 2,54 m að lengd og 2,86 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki og stallur undir honum. Á framhlið turns er sveigður gluggi og hringgluggi efst. Veggir eru sléttaðir, þök og turn klædd bárujárni en turnstallur sléttu járni. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar með 12 rúðum og minni níurúðu gluggi ofarlega á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogadreginn gluggi yfir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim bogadreginn útskorinn skjöldur og ártalið 1891. Inn af dyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kórþil klætt spjaldaþili með panil er í baki innstu bekkja. Í því eru þrír bogar; í kórdyrum og einn hvorum megin. Milli bogastoða er slá með randskorinni fjöl yfir. Að sunnanverðu er boginn yfir stóldyrum að prédikunarstól framan kórþils. Yfir fremri hluta framkirkju er setuloft og stigi við framgafl sunnan megin. Forkirkja er klædd strikuðum panelborðum. Neðri hluti veggja í framkirkju og kór er klæddur strikuðum panelborðum milli gólfsyllu og miðsyllu en efri hluti klæddur sandblásnum panelborðum. Reitaskipt hvelfing er yfir innri hluta framkirkju og kór, skreytt táknmyndum, svo og kórgafl undir boga hvelfingar. Veggir og risloft yfir setulofti eru klædd strikuðum panelborðum.[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 92. Bréf 1892. Reikningur yfir byggingarkostnað Innrahólmskirkju 1891 og 1892, ásamt fylgiskjölum.

[2] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 92. Bréf 1893. Skýrsluágrip um kirkjuskoðunarferð [1892]. Lýsing Innra-Hólmskirkju. 

[3] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Borgarfjarðarprófastsdæmi AA/13. Innra-Hólmskirkja 1907.

[4] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Borgarfjarðarprófastsdæmi AA/14. Innri-Hólmskirkja 1924.

[5] ÞÍ. Biskupsskjalasafn AA/7. Borgarfjarðarprófastsdæmi. Innri-Hólmskirkja 1958.

[6] ÞÍ. Biskupsskjalasafn AA/12. Borgarfjarðarprófastsdæmi. Innra-Hólmskirkja 1969; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 13, Innra-Hólmskirkja, 174-191. Reykjavík 2009.