Vesturland
  • 2287

Álftaneskirkja

Mýrar

Byggingarár: 1904.[1]

Hönnuður: Baldur Benediktsson forsmiður.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Álftaneskirkja er timburhús, 7,65 m að lengd og 5,75 m á breidd, með þrískiptan turn við vesturstafn, 2,50 m að lengd og 2,64 m á breidd. Á kirkju er krossreist þak. Stöpull er ferstrendur og á honum er tvískiptur turn; ferstrendur að neðan en áttstrendur og burstsettur að ofan. Á honum er há áttstrend spíra. Kirkjan er bárujárnsklædd en turnþök klædd sléttu járni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Undir þakbrúnum kirkju eru skornar vindskeiðar en tannstafur undir þakbrún stöpuls. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir póstagluggar með þriggja rúðu römmum og yfir þeim veglegar skrautfjalir. Efst á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls er minni gluggi, einn á suðurhlið turns og tveir á stöpli, sá neðri með skrautfjöl yfir. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar hurðir; þær ytri spjaldsettar vængjahurðir með skorinni fjöl yfir en spjaldsett hurð að innan.

Í forkirkju er stigi upp á söngloft yfir fremsta hluta framkirkju og spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn af þeim er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um tvö þrep. Lágt kórþil klætt spjaldaþili er á mörkum framkirkju og kórs. Undir sönglofti eru fjórar stoðir með súluhöfuð með snigilkröppum. Veggir framkirkju og kórs eru klæddir spjaldaþili upp undir glugga en eru þar fyrir ofan klæddir marmaramáluðum pappa. Efst á veggjum er strikasylla sem leidd er fyrir kórgafl að skoruðum hálfsúlum hvorum megin altaris en milli þeirra er bogi. Yfir kirkjunni stafna á milli er reitaskipt stjörnusett hvelfing.


[1] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/10. Álftaneskirkja 1911.

[2] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 102. Bréf 1907. Fylgiskjal 8b með byggingarreikningi Álftaneskirkju; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 14, Álftaneskirkja, 54-69. Reykjavík 2009.