Vesturland
  • 2286

Álftártungukirkja

Mýrar

Byggingarár: 1873.

Hönnuður: Guðni Jónsson forsmiður og bóndi í Valshamri.[1]

Breytingar: Í öndverðu voru veggir klæddir listaþili, þak listasúð og kirkjan var bikuð utan. Að innan voru veggir klæddir spjaldaþili og reitaskipt hvelfing yfir kór en loft á bitum yfir framkirkju.[2]

1907 var kirkjan öll klædd bárujárni og um svipað leyti var loft tekið úr innri hluta framkirkju og hvelfing lengd úr kór inn yfir hana að fremsta stafgólfi.

Árið 1912 var málningarpappír settur í reiti spjaldaþils.

Árið 1957 voru settir sexrúðu gluggar með þverpóstum í suðurhlið og síðar á framstafn og norðurhlið.[3]

Hönnuðir: Ókunnir.

Nýir bekkir voru smíðaðir í kirkjuna 1993.

Hönnuðir: Einar Ole Pedersen og Guðjón Guðlaugsson smiður.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Álftártungukirkja er timburhús, 7,63 m að lengd og 5,02 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er lágur turn með íbjúgum hliðum og risþaki. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir krosspóstagluggar og einn á framstafni yfir kirkjudyrum. Í þeim eru rammar og sex rúður. Lítill fjögurra rúðu krosspóstsgluggi á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar hurðir. Að utan eru vængjahurðir en spjaldsett hurð að innan.

Gangur er inn af dyrum og bekkir hvorum megin hans. Yfir fremsta stafgólfi framkirkju er afþiljað loft á bitum og stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir spjaldaþili en málningarpappír er í reitunum. Yfir innri hluta framkirkju og kórs er reitaskipt hvelfing.[1] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Álftártungukirkja á Mýrum. Fréttatilkynning 1985. Lilja Árnadóttir.

[2] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/9. Álftártungukirkja 1874.

[3] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/10. Álftártungukirkja 1907, 1917; Biskupsskjalasafn 1994 AA/        . Álftártungukirkja 1958.

[4] Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 14, Álftártungukirkja, 92-105. Reykjavík 2009.