Vesturland
  • 0215

Hvammskirkja, Norðurárdal

Byggingarár: 1880.

Hönnuður: Björn Þorláksson forsmiður og bóndi í Munaðarnesi og síðar á Álafossi.[1]

Breytingar: Í öndverðu var þakið timburklætt og veggir klæddir vatnsklæðningu og kirkjan stóð á steinhlöðnum sökkli. Árið 1900 var kirkjan öll bárujárnsklædd nema kórbakið og þá var hún máluð að innan í fyrsta sinn frá því hún var byggð og smíðaðir í hana nýir bekkir og grátur.[2]

Á árunum 1969–1970 var steyptur sökkull undir kirkjuna, veggir klæddirvatnsklæðningu, nýir gluggar með tvöföldu gleri settir í hana og turninn endursmíðaður frá grunni.

Hönnuður: Hörður Ágústsson listmálari.[3]

Turn kirkjunnar var endurbyggður árið 2009 og tekur mið af turni kirkjunnar á fyrri hluta 20. aldar.

Hönnuður: Hrafnhildur Sverrisdóttir arkitekt.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hvammskirkja er timburhús, 7,67 m að lengd og 5,14 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn og á honum sveigt toppþak. Kirkjan er klædd vatnsklæðningu, þök bárujárni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstgluggar með þriggja rúðu römmum, minni gluggi er á framstafni og hringgluggi á turni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, þær innri spjaldsettar.

Inn af dyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Afþiljað loft er yfir fremri hluta framkirkju og stigi við framgafl sunnan megin. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Efst á þeim er strikasylla sem leidd er fyrir gafla og frambrún kirkjulofts. Yfir strikasyllu í innri hluta framkirkju og kór er málaður rósabekkur. Loft í fremri hluta framkirkju er klætt strikuðum panelborðum en reitaskipt hvelfing er yfir innri hluta kirkjunnar.


[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 100. Bréf 1882. Byggingarreikningur Hvammskirkju í Norðurárdal 1880-81.

[2] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/9 og 10. Hvammskirkja 1884, 1902 og 1909.

[3] ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994 AA/12.  Hvammskirkja 1969; Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990, 63. Reykjavík 2000; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 14, Hvammskirkja, 204-220.

[4] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hvammskirkja í Norðurárdal; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 14, Hvammskirkja, 204-220. Reykjavík 2009.