Vesturland
  • 0219

Stafholtskirkja

Stafholtstungur

Byggingarár: 1875–1877.[1]

Hönnuður: Talið er að Magnús Árnason forsmiður hafi gert uppdrætti að kirkjunni, hugsanlega í samvinnu við Halldór Bjarnason forsmið, sem báðir unni að smíði kirkjunnar.[2]

Breytingar: Í öndverðu var forkirkja við vesturstafn, þakturn á bjúgstalli upp af stafninum, veggir klæddir listaþili en listasúð á þaki og átta rúðu hornsneiddir krosspóstagluggar í hliðarveggjum. Kirkjan var tjörguð og stóð á steinhlöðnum sökkli.[3]

Á árunum 1888–1890 var bárujárn lagt á þök og hluta forkirkju en turninn klæddur sinki.

Árið 1903 voru veggir kirkju og turns klæddir bárujárni.[4]

Árið 1948 voru þakturn og forkirkja rifin en í þeirra stað smíðaður turn við vesturstafn, sökklar steinsteyptir og oddbogagluggar settir í kirkjuna.

Hönnuður: Kristján F. Björnsson byggingameistari á Steinum.[5]

Árið 2009 var hafin viðgerð á kirkjunni og þrír nýir gluggar með upprunalegi sniði settir á suðurhlið.[6]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Stafholtskirkja er timburhús með afsniðin horn við kórbak, hliðarveggir eru 9,60 m að lengd, hornsneiðingar 2,96 m að lengd, og kórbak 3,28 m á breidd, og tvískiptur turn er við vesturstafn, 3,29 m að lengd og 4,06 m á breidd. Þak kirkju er krossreist en gaflsneitt yfir kór. Á stöpli er sveigt þak upp að ferstrendum turni með hátt píramítaþak sem sveigist út að neðan. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Þrír átta rúðu hornsneiddir krosspóstagluggar eru á hvorri hlið kirkju og einn á hvorri hornsneiðingu kórs. Einn smárúðóttur oddbogagluggi er á framstafni stöpuls yfir dyrum og þrír á turnhliðum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir.

Í forkirkju er stigi upp í turninn og spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn að þeim er gangur og bekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Kórþil er á mörkum framkirkju og kórs og bogi yfir kórdyrum. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep. Veggir forkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum en kirkjan klædd spjaldaþili. Yfir fremri hluta framkirkju er loft á bitum en yfir innri hluta og kór er reitaskipt áttdeilt hvolþak sett stjörnum.


[1] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/9. Stafholtskirkja 1884.

[2] Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 14. Stafholtskirkja 244.

[3] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/9. Stafholtskirkja 1878.

[4] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/9. Stafholtskirkja 1890 og 1903; Biskupsskjalasafn C, V. 101. Bréf 1903. Reikningur yfir kostnað við umbót Stafholtskirkju 1903.

[5] ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994 AA/6. Stafholtskirkja 1949; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 14, Stafholtskirkja, 243-259. Reykjavík 2009.

[6] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Stafholtskirkja.