Vesturland
  • 0214

Gilsbakkakirkja

Hvítársíðuhreppur

Byggingarár: 1908.

Athugasemd: Smíðuð upp úr eldri kirkju sem fauk 15. desember 1907.[1]

Hönnuður: Ingólfur Guðmundsson forsmiður, bóndi og hreppstjóri á Breiðabólstað í Reykholtsdal.[2]

Breytingar: Í upphafi stóð kirkjan á hlöðnum sökkli, var turnlaus og alklædd bárujárni og á hvorum hliðarvegg voru tveir sexrúðu póstagluggar.

Steypt var utan á veggi, þrír oddbogagluggar settir í hvorn hliðarvegg og steinsteyptur turn reistur 1953–1954.

Hönnuður: Björn Kristjánsson smiður.

Árið 1960 var gólf steypt og vikurplötur múraðar inn í suðurvegg í stað fúinnar grindar.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Gilsbakkakirkja er timburhús hjúpað steinsteypu, 6,69 m að lengd og 5,43 m á breidd, með ferstrendan steinsteyptan stöpul við vesturstafn, 2,40 m að lengd og 2,52 m á breidd. Á stöpli er timburturn, veggir sveigjast út að neðan og á honum er íbjúgt píramítaþak. Turninn er klæddur sléttu járni. Kirkjuþak er krossreist og klætt bárujárni en veggir sléttaðir. Á hvorri hlið kirkju eru þrír oddbogagluggar með níu rúðum og einn minni gluggi á þremur hliðum turns. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og þvergluggi yfir.

Að framkirkju eru vængjahurðir og gangur inn af og bekkir hvorum megin hans. Veggir forkirkju og hluti suðurveggjar í framkirkju eru múrhúðaðir en aðrir veggir eru klæddir sléttum plötum með listum yfir samskeytum. Reitaskipt hvelfing er stafna á milli.


[1] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/10. Gilsbakkakirkja 1909.

[2] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 102. Bréf 1909. Reikningur yfir kostnað við endurbyggingu Gilsbakkakirkju árið 1908.

[3] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/10. Gilsbakkakirkja 1909; Biskupsskjalasafn 1994 AA/ 7 og 12. Gilsbakkakirkja 1958 og 1969; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 13, Gilsbakkakirkja, 95-108. Reykjavík 2009.