Vesturland
  • 0400

Reykholtskirkja

Reykholt, Borgarfirði

Byggingarár: 1886–1887.

Hönnuðir: Ingólfur Guðmundsson forsmiður.[1]

Breytingar: Í öndverðu voru veggir klæddir láréttri plægðri borðaklæðningu, þök bárujárnklædd og turn sinkklæddur. Á kirkjunni voru gluggar með T-laga póstum og þverfagi efst með bogarimum.

Árið 1897 voru veggir klæddir bárujárni.

Árið 1950 var steyptur sökkull undir kirkjuna, settir í hana bogadregnir gluggar og hún klædd innan með masonít- og texplötum.[2]

Hönnuðir: Ókunnir.

Á árunum 2001-2006 var kirkjan færð til upprunalegs horfs að utan og innan.

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 2001.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Reykholtskirkja er timburhús, 9,62 m að lengd og 6,54 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,90 m að lengd og 3,62 m á breidd, og forkirkju við vesturstafn, 2,28 m að lengd og 2,94 m á breidd. Þök eru krossreist og undir þakbrúnum eru laufskornar vindskeiðar. Upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hann stendur á bjúgstalli. Á framstafni turns er hljómop með vængjahlerum og bogaglugga yfir en á hliðum eru bogadregnir faldar um fölsk hljómop. Turnveggir og bjúgstallur eru klæddir sléttu járni. Kirkjan er klædd láréttri plægðri borðaklæðningu og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru fjórir gluggar og einn hvorum megin á kór. Í þeim er T-laga póstur, þriggja rúðu rammar eru neðan þverpósts og þverrammi að ofan með bogarimum og yfir þeim strikaðar bríkur. Á framstafni er póstgluggi með þriggja rúðu römmum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir, þvergluggi með bogarimum að ofan og bjór yfir. Efst er lítill þríhyrndur gluggi.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um tvö þrep. Setuloft er yfir fremri hluta framkirkju og stigi upp á það norðan megin við framgafl. Undir loftinu eru fjórar súlur og milli þeirra bogadregnir bitar. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum, flatsúlur eru í kórdyrum og bogi yfir. Efst á veggjum er strikasylla undir hvelfingum framkirkju og kórs.


[1] Guðrún Harðardóttir. Kirkjur Íslands 13, Reykholtskirkja, 294. Reykjavík 2009.

[2] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 92. Bréf 1895. Lýsing Reykholtskirkju 3. janúar 1895 við afhendingu til safnaðar; Bréf 1897. Skýrsla um kirknaskoðun í Borgarfjarðarprófastsdæmi 1897. Reykholtskirkja 8. september 1897; Biskupsskjalasafn 1994 AA/6. Reykholtskirkja  1951; Hjörleifur Stefánsson. Reykholtskirkja. Greinargerð dagsett 8. apríl 1984.

[3] Þjóðminjasafn Íslands. Skjalasafn húsasafns. Reykholtskirkja; Guðrún Harðardóttir. Kirkjur Íslands 13, Reykholtskirkja, 293-307. Reykjavík 2009..