Vesturland
  • 1579

Silfurgata 4 (Kúldshús), Stykkishólmi

Byggingarár: 1848 í Flatey á Breiðafirði.

Athugasemd: Tekið niður 1860 og endurreist á Þingvöllum á Snæfellsnesi. Tekið niður og endurreist í Stykkishólmi 1868.

Hönnuður: Ekki er vitað hver hannaði frumgerð hússins en Ebenezer Matthíasson snikkari endurreisti Kúldshús á Þingvöllum og aftur í Stykkishólmi og bætti á það miðjukvisti.[1]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Kúldshús er einlyft timburhús með miðjukvist sem gengur þvert í gegnum húsið og risþak með hálfvalma, um 10,6 m að lengd og 7,7 m á breidd. Við bakhlið þess er tveggja hæða inngönguskúr með lágu risþaki, 2,5 m að lengd og 2,5 m á breidd, og einnar hæðar skúrbygging með skúrþaki, 3,8 m að lengd og 3,8 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli og við það er timburpallur á þrjá vegu. Veggir eru klæddir listaþili og þök bárujárni. Á húsinu eru sex rúðu krosspóstagluggar en á gaflhyrnu norðan megin og á skúr eru sex rúðu gluggar með miðpósti. Á miðri framhlið eru útidyr og fyrir þeim tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi yfir. Bakdyr eru á suðurhlið inngönguskúrs og vesturhlið skúrs.


[1] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 163. Reykjavík 1998.