Vesturland
  • 1778

Setbergskirkja

Eyrarsveit

Byggingarár: 1892.

Hönnuður: Sveinn Jónsson forsmiður frá Djúpadal.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Setbergskirkja er timburhús, 7,79 m að lengd og 6,45 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni, veggir klæddir lóðréttum strikuðum og plægðum borðum og kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og á framstafni er skásettur fjögurra rúðu gluggi. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og fjöl yfir með nafni kirkjunnar og byggingarári.

Inn af kirkjudyrum er gangur inn að háum kórpalli innst í kirkjunni. Sveigðir bekkir eru hvorum megin gangs. Frambrún kórpalls er bogadregin og girt handriði með renndum pílárum. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og klæddur stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og efst á þeim er strikasylla sem leidd er fyrir kórgafl. Yfir kirkjunni stafna á milli er reitaskipt hvelfing klædd sinkplötum.


[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V 112. Bréf 1894. Byggingarreikningur Setbergskirkju 1893 ásamt fylgiskjölum og Lýsing á Setbergskirkju; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Setbergskirkja, handrit 2009.